1.1 C
Selfoss
Home Fréttir Lyflækningadeild HSU Selfossi

Lyflækningadeild HSU Selfossi

0
Lyflækningadeild HSU Selfossi
Guðrún Kormáksdóttir, hjúkrunardeildarstjóri lyflækningadeildar HSU á Selfossi.
Guðrún Kormáksdóttir, hjúkrunardeildarstjóri lyflækningadeildar HSU á Selfossi.

Lyflækningadeildin á Selfossi er 18 rúma sólahringsdeild. Á deildinni fer fram almenn lyflækningaþjónusta og bráðaþjónusta í lyflækningum. Flestir sjúklingar sem leggjast inn koma vegna bráðara veikinda frá bráðamóttöku HSU eða Landspítala (LSH), hjúkrunarheimilum á Suðurlandi og Sólheimum í Grímsnesi. Sjúklingar leggjast einnig inn á deildina vegna endurhæfingar eða vegna legu í kjölfar aðgerðar frá bæklunardeild LSH, meðferðar vegna langvinnra sjúkdóma eða líknandi meðferðar. Flestir sjúklingar leggjast inn vegna bráðara veikinda.

Um 40% sjúklinga sem leggjast inn á deildina koma frá LSH. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hefur mikið álag verið á LSH og hefur mikill þrýstingur verið á HSU að taka á móti öllu okkar fólki sem við ráðum við að sinna. Þetta kallar á að flæði deildarinnar sé mikið. Deildin er ekki með hvíldarrými eins og er. Þær innlagnir eiga að fara eftir ákveðnu ferli í gegnum Færni- og heilsumatsnefnd sem metur eftir ákveðnu kerfi þörf einstaklinga fyrir vistun í hvíldarrými á hjúkrunardeildum.

Um leið og sjúklingur leggst inn er farið að huga að útskrift hans. Þá er skoðuð áætluð lengd dvalar hér og hvort sjúklingur komist yfirleitt heim, hvaða aðstoð hann þarf með heimahjúkrun ef þess er þörf og einnig aðstoðum við sjúklinga/aðstandendur við að sækja um mat hjá Færni- og heilsumatsnefnd ef þess er þörf.

Við viljum koma að sem flestum sunnlenskum sjúklingum sem virkilega þurfa á sjúkrahúslegu að halda. Að við þurfum ekki að senda eldri sjúklinga okkar á LSH vegna þess að deildin er full. Það er því mikilvægt að halda flæði þannig að flestir sem þurfa á okkur að halda komist að.

F.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands
Guðrún Kormáksdóttir, hjúkrunardeildarstjóri lyflækningadeildar HSU á Selfossi.