-6.6 C
Selfoss

Vikulegar siglingar á milli Þorlákshafnar og Rotterdam

Vinsælast

Mykines, nýjasta flutningaskip Smyril Line Cargo, kemur til Þorlákshafnar í dag í fyrstu ferð sinni til nýs áfangastaðar. Mykines er 19 þúsund tonna flutningsferja Smyril Line Cargo sem mun hafa vikulegar siglingar milli Þorlákshafnar og Rotterdam.

Hlökkum til frekara samstarfs

„Framkvæmdir vegna aðstöðu fyrir skipið í Þorlákshöfn hafa gengið mjög vel og hefur verið gaman að vinna með bæjar- og hafnarstjórn Ölfuss að framkvæmdunum. Við hlökkum mikið til enn frekara samstarfs á komandi árum. Smyril Line vonar jafnframt að koma Mykines hafi jákvæð áhrif á uppbyggingu á svæðinu,“ segir Linda Björk Gunnlaugsdóttir, framkvæmdarstjóri Smyril Line Cargo á Íslandi, í bréfi til íbúa.

Fyrirtækið hefur í tilefni komu skipsins boðið íbúum Ölfuss og nærsveita að koma um borð og skoða skipið og njóta dagsins. Boðið verður uppá léttar veitingar og lifandi tónlist. Fögnuðurinn hefst klukkan 16:00 um borð í Mykinesi á hafnarsvæðinu og stendur til 18:00.

Aukinn áhugi á Þorlákshöfn

„Við byrjuðum undirbúning að endurbótum Þorlákshafnar í byrjun árs 2014, fengum verkefnið viðurkennt á samgönguáætlun og framkvæmdir hófust árið 2015. Þetta ferjuverkefni með Smyril Line er afrakstur þeirrar vinnu því án hennar hefði þetta ekki verið mögulegt. Við vonumst að sjálfsögðu til að ferjusiglingarverkefnið gangi vel, vaxi og dafni. Þá höfum við væntingar til þess að þetta verkefni komi til með að hafa jákvæð áhrif á uppbyggingu á svæðinu en við finnum áþreifanlega fyrir auknum áhuga á Þorlákshöfn í tengslum við atvinnuuppbyggingu og búsetu. Umfjöllun um ferjuverkefnið hefur þar áhrif á, auglýsingar frá sveitarfélaginu sem vakið hafa mikla og jákvæða athygli, landfræðileg lega og allir innviðir,“ segir Gunnsteinn R. Ómarsson, sveitarstjóri Ölfuss.

 

Nýjar fréttir