-0.5 C
Selfoss
Home Fréttir Inga Hlöðvers sýnir í Húsinu á Eyrarbakka

Inga Hlöðvers sýnir í Húsinu á Eyrarbakka

0
Inga Hlöðvers sýnir í Húsinu á Eyrarbakka
Málverk eftir Ingu Hlöðvers.
Málverk eftir Ingu Hlöðvers.

Inga Hlöðvers myndlistarmaður opnar sýningu í borðstofu Hússins á Eyrarbakka laugardaginn 8. apríl kl. 13. Á sýningunni gefur að líta myndir af fuglum og efni tengt Eyrarbakka.

Inga Hlöðvers fæddist í Reykjavík og stundaði nám í Myndlistaskóla Reykjavíkur, Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Academie voor Beeldende Kunst í Rotterdam, Hollandi. Á árunum 1987 til 2003 bjó hún í Hollandi og Frakklandi, tók þátt í samsýningum og hélt einkasýningar á verkum sínum á meginlandi Evrópu, í Bretlandi og á Íslandi. Um miðjan 10. áratuginn þróuðust málverk Ingu í átt að abstraktverkum af íslensku landslagi en síðan hafa þau orðið fígúratívari og myndefnið breyst. Inga býr og vinnur nú á Eyrarbakka.

Í tengslum við sýningaropnunina verður boðið upp á dagskrá kl. 15 í samvinnu við Bakkastofu. Ásta Kristrún Ragnarsdóttir og Valgeir Guðjónsson leggja út frá sýningu Ingu í tali og tónum.

Eins og áður segir opnar sýningin 8. apríl og stendur til 23. apríl kl 13–17 en á öðrum tímum eftir samkomulagi.

Að auki býður Bakkastofa upp á fuglatónleika í Eyrarbakkakirkju, dagana 9. apríl (Pálmasunnudag), 13. apríl (Skírdag) og 20. apríl (Sumardaginn fyrsta) kl. 15 í tengslum við sýningu Ingu. Valgeir Guðjónsson er þekktur fyrir lagasmíðar sínar við fuglavísur Jóhannesar úr Kötlum. Hóflegur aðgangseyrir. Dagskrá fyrir alla fjölskylduna.