Aðalfundur Vinafélags Ljósheima og Fossheima var haldinn á Ljósheimum 2. apríl sl. Á fundinum voru kjörnir fimm nýir einstaklingar í stjórnina. Ný stjórn er þannig skipuð: Birgir Jónsson, formaður, Esther Óskarsdóttir, gjaldkeri, og Lísbet Níelsdóttir, María Óladóttir, Sædís Jónsdóttir og Þorvarður Hjaltason, meðstjórnendur. Endurskoðendur eru: Kristín Gunnarsdóttir og Kjartan Ólafsson.
Á fundinum var félaginu afhent 100 þúsund króna gjöf til minningar um hjónin Ingibjörgu Árnadóttur og Einar Sigurðson. Gjöfin var frá börnum þeirra hjóna en þær systur Jarþrúður og Sonja afhentu gjöfina.
Á aðalfundinum var eftirfarandi ályktun samþykkt samhljóða:
„Aðalfundur Vinafélagsins mótmælir því harðlega að aldraðir og veikir íbúar í byggðarlaginu skuli fluttir hreppaflutningum, burtu frá ástvinum og sínu umhverfi þegar síst skyldi og velferðarkerfið ætti að bjóða sómasamlegan aðbúnað. Slíkt er ekki viðunandi háttalag í því allsnægta samfélagi sem við búum í.
Aðalfundur Vinafélags Ljósheima og Fossheima skorar á Alþingismenn og sveitarstjórnafólk á Suðurlandi að gera gangskör að fjárveitingum til hjúkrunardeilda aldraðra þannig að nauðsynleg umönnun sé tryggð og heimilisfólk hjúkrunardeilda fái búið við öryggi og mannlega reisn. Fundurinn leggur sérstaka áherslu á nauðsyn þess að í boði séu hvíldarrými í heimabyggð fólks en það er ein helsta forsenda þess að aldraðir geti búið sem lengst á sínum heimilum.
Þá vill fundurinn minna á það gríðarlega álag sem er á heilbrigðisþjónustu í Árnessýslu vegna stóraukins ferðamannastraums og stöðugrar fjölgunar þeirra sem dvelja í frístundabyggðum í umdæminu og skapar enn meiri hættu á því að starfsemi einstakra þjónustuþátta fari undir öryggismörk.“