Um miðjan dag í gær barst lögreglunni á Suðurlandi beiðni um aðstoð vegna fólksflutningabifreiðar sem hafði farið að hluta útaf Þingvallavegi, svokölluðum „Ólafsvegi“ í þjóðgarðinum á Þingvöllum. Vegkanturinn mun hafa gefið sig (eins og sjá má á mynd) en ökumanninum tókst að stöðva bifreiðina og þannig koma í veg fyrir að hún færi á hliðina. Í bifreiðinni voru 45 manns. Ekki var hægt að opna hurð til að hleypa fólkinu út. Nokkur viðbúnaður varð vegna þessa atviks en engin slasaðist og allir í góðu jafnvægi. Tæpri klukkustund eftir að óhappið varð tókst að opna hurðina á bifreiðinni og allir komnir út skömmu síðar. Eins og sjá má á myndinni er vegkanturinn veikburða og vaxandi áhyggur af aukinni umferð stórra fólksbifreiða um þennan vegarkafla í þjóðgarðinum sem virðist mjög veikburða.
Um þrjúleytið á föstudag var tilkynnt um eld í jeppabifreið á Þórsmerkurvegi við Gígjujökul. Þar var á ferð íslenskur ökuleiðsögumaður með fjóra unga Þjóðverja. Slökkvilið fór á vettvang og slökkti eldinn í bílnum sem þá var að mestu brunninn. Þarna var um að ræða vel tækjum búinn breyttan jeppa sem er ónýtur efir brunann. Ökumanni tókst með snarræði að bjarga farangri og öðrum lausamunum frá eldinum. Einhver mengun á jarðvegi var talinn hafa hlotist af brunanum og til að láta náttúruna njóta vafans kom byggingafulltrúi sveitarfélagsins því til leiðar að framkvæma jarðvegsskipti og ganga frá vettvangi þegar í stað svo sómi var af.
Umferðardeild lögreglunnar var á ferðinni vítt og breitt um umdæmið í vikunni, en hlutverk þess er fyrst og fremst að fylgjast með stærð og þyngd ökutækja, hvíldartíma ökumanna, leyfismálum er snúa að rekstri ökutækja sem og að sinna öðrum umferðarlagabrotum sem hún verður vitni að svo sem hraðakstur og ölvunarakstur. Þegar rúmt ár er liðið frá því að lögreglustjórinn á Suðurlandi tók við þeim hluta starfseminnar sem snýr að Suðurlandi og Suðvesturhluta landsins er reynslan mjög góð. Meðal annars vegna þess að lögreglumennirnir vinna verkefnið frá upphafi brots í hendur ákæruvalds.
Í umdæminu voru í síðustu vikur þrír ökumenn kærðir fyrir ölvun við akstur, þrír fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna og 55 fyrir hraðakstur. Fimm umráðamenn ökutækja voru kærðir fyrir að vanrækja skyldu um vátryggingu og einn af þeim að auki kærður fyrir skjalafals vegna gruns um að hann hafi sett skoðunarmiða með ártalinu 1918 á skráninganúmerin en bifreiðin hafði síðast verið skoðuð í byrjun árs 2015.
Úr dagbók lögreglunnar á Suðurlandi.