-0.5 C
Selfoss

Vigdís Finnbogadóttir verndari Oddafélagsins

Vinsælast

Skemmtilegt stemning myndaðist við styttu Sæmundar fyrir framan Háskóla Íslands þegar Sæmundarstund var haldin í hádeginu á vorjafndægri 20. mars sl. Þar flutti Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands ávarp og minntist m.a. Sæmundar og sögu Odda á Rangárvöllum. Einnig flutti ávarp Þór Jakobsson heiðursfélagi Oddafélagsins og fyrrum formaður þess. Börnin úr leikskólanum Mánagarði mættu við styttuna og tóku lagið. Áður hafði Háskólakórinn flutt tvö lög undir stjórn Guðsteins Ólafssonar og Ási Þórðarson varaformaður stúdentaráðs flutt ávarp.

Á Sæmundarstund var tilkynnt að Vigdís Finnbogadóttir fyrrveransi forseti væri nú verndari Oddafélagsins. Á heimasíðu Oddafélagsins segir: „…að það sé geysilegur heiður fyrir félagið og ómetanlegt að eiga stuðning Vigdísar og velvilja að í baráttunni fyrir því að gera „Odda á Rangárvöllum að miðstöð menningar á ný“. Hafðu heila þökk Vigdís.“

Sæmundarstund var fyrst haldin á aldarafmæli Háskóla Íslands árið 2011 að frumkvæði Oddafélagsins, sem er félag áhugamanna um endurreisn fræðaseturs að Odda á Rangárvöllum þar sem Sæmundur fróði bjó. Stundin hefur verið haldin árlega síðan, jafnan á degi sem næst vorjafndægrum. Þar er lærdómsmannsins og þjóðasagnapersónunnar Sæmundar fróða Sigfússonar minnst en hann var uppi á 11. og 12. öld. Sæmundur fór utan til náms og nam m.a. við skóla í Evrópu áður en hann sneri aftur til Íslands og gerðist prestur að Odda á Rangárvöllum.

Styttuna af Sæmundi á selnum gerði Ásmundur Sveinsson og vísar hún til frægrar þjóðsögu af viðureign Sæmundar við kölska sem samkvæmt þjóðsögunni flutti Sæmund heim til Íslands í selslíki.

Nýjar fréttir