Sóley Linda Egilsdóttir er lestrarhestud Dagskrárinnar að þessu sinni. Hún er stúdent frá FSu og útskrifaðist með B.A. gráðu í bókmenntafræði árið 2013. Hún var virk í starfi Stúdentaleikhússins meðfram háskólanámi og var formaður þess frá 2013-2014. Síðastliðinn nóvember lauk hún M.A. gráðu í Theatre Directing: Text and Production frá University of East Anglia. Sóley er tiltölulega nýflutt til Vestmannaeyja, er í sambúð með Viðari Stefánssyni presti og starfar á bókasafninu þar.
Hvaða bók ertu að lesa núna og hvað vakti áhuga þinn á henni?
Ég er að lesa tvær bækur: Flugdrekahlauparann eftir Khaled Hosseini og The Sense of an Ending eftir Julian Barnes. Ég ætlaði að vera löngu búin að lesa Flugdrekahlauparann en hún hlaut mikla athygli þegar hún kom út. Ég á líka eftir að sjá kvikmyndina sem var gerð eftir bókinni en ég vil endilega lesa bókina fyrst áður en ég sé hana. Ég vil yfirleitt lesa bækurnar fyrst og sjá svo myndirnar sem hafa verið gerðar eftir bókunum vegna þess að bækurnar eru í nánast öllum tilfellum betri. Núna er ég að taka þátt í lestraráskorun með vinnufélögum mínum þar sem við búum til lista yfir bækur sem við þurfum að lesa á árinu. Eitt atriðið á listanum er að lesa bók sem unnið hefur til alþjóðlegra verðlauna. Ég fór að skoða bækur sem unnið hafa til verðlauna og The Sense of an Ending vakti áhuga minn en hún hlaut The Man Booker Prize árið 2011.
Getur þú lýst lestrarvenjum þínum?
Einu sinni las ég alltaf áður en ég fór að sofa. Núna hefur það aðeins breyst en mig langar til þess að taka þetta upp aftur. Það er svo róandi að lesa fyrir svefninn. Nýlega er ég farin að hlusta líka á hljóðbækur í gegnum appið Audible. Þess vegna er ég alltaf með tvær bækur í gangi, eina sem ég hlusta á og aðra sem ég les með hefðbundnum hætti. Kosturinn við hljóðbækur er að með þeim er hægt að gera tvennt í einu til dæmis að sinna uppvaskinu og hlusta á gott bókmenntaverk.
Hvers konar bækur höfða helst til þín?
Hverskyns skáldskapur höfðar til mín en þá skiptir engu í hvaða flokk bókin fer. Það er skemmtilegast að reyna að lesa sem fjölbreyttast. Mér finnst líka mjög gaman að lesa leikrit og er sérstaklega hrifin af forngrískum leikritum.
Getur þú sagt frá bók sem hafði mikil áhrif á þig?
Þúsund bjartar sólir eftir Khaled Hosseini hafði mjög mikil áhrif á mig og lifir enn með mér. Hún er einstaklega vel skrifuð með miklu innsæi en hún segir frá tveimur afgönskum konum og lífi þeirra í Kabúl á tímum stríðandi herja og ógnarstjórnar talíbana. Ég verð einnig að nefna bók sem ég hlustaði á mjög nýlega í gegnum Audible. Það er The humans eftir Matt Haig. Hún er virkilega vel skrifuð og einstaklega vel lesin upp svo það jók mjög á ánægjuna. Þessi bók dregur upp mjög skemmtilega og sterka mynd af því hvað gerir okkur mennsk og hvað það er að vera manneskja.
Hver er uppáhalds barnabókin þín?
Mér fannst rosalega gaman að lesa þegar ég var ung og las mikið eftir Enid Blyton. Fimm bækurnar og Ævintýrabækurnar voru í mjög miklu uppáhaldi. Ég verð samt að nefna sérstaklega Elsku míó minn eftir Astrid Lindgren en hún var algjörlega uppáhalds. Ævintýraheimurinn í þeirri bók birtist ljóslifandi fyrir mér og snerti við mér. Ég var líka mjög hrifin af Bláa hnettinum eftir Andra Snæ Magnason og svo auðvitað allar Harry Potter bækurnar en ég er mikill Harry Potter aðdáandi.
Geta bækur breytt viðhorfi manna?
Já þær geta gert það. Ég held að lestur góðra bóka geri mann víðsýnni og kannski umburðalyndari fyrir öðru fólki. Góðar bækur veita okkur innsýn í tilfinningalíf og aðstæður annarra á djúpstæðari hátt en önnur frásagnarform.