3.9 C
Selfoss
Home Fréttir Ný læsistefna Árborgar kynnt

Ný læsistefna Árborgar kynnt

0
Ný læsistefna Árborgar kynnt

Í vetur hafa leikskólar og grunnskólar Sveitarfélagsins Árborgar unnið eftir nýlegri læsisstefnu sem nú er verið að gefa út. Vinna faghópa í skólum sveitarfélagsins og öflugt þróunarstarf síðastliðin þrjú ár er grunnur læsisstefnunnar. Þarna er að finna leiðbeiningar og viðmið sem eru leiðarvísir fyrir foreldra og kennara í leik- og grunnskólum en einnig fyrir þá nemendur sem eru farnir að bera mikla ábyrgð á eigin námi.

Eins og fram kemur í læsisstefnunni er nauðsynlegt að viðhalda og þróa læsi og lestrarfærni alla skólagönguna. Einnig þurfa áherslur í námi og kennslu að leggja grunn að ánægjulegri upplifun af lestri. Mikilvægt er að nemendur á öllum aldri hafi góðar lestrarfyrirmyndir bæði heima og í skóla þar sem lestur og spjall um lífið og tilveruna eru hluti af daglegu lífi. Bæði heimalestur, a.m.k. fimm daga vikunnar, og að lesa upphátt í skólanum er mikilvægur liður í því að skapa besta mögulega námsárangur og velferð nemenda.

Fræðslustjóri hvetur nemendur, foreldra, kennara og sem flesta aðila skólasamfélagsins til að kynna sér læsisstefnuna og fylgja henni vel eftir. Lífið er læsi er aðgengileg á heimasíðu Árborgar í pdf formi og þá verður stefnan prentuð í takmörkuðu upplagi. Fljótlega verður hægt að nálgast hana í leik- og grunnskólum sveitarfélagsins og í Ráðhúsi Árborgar.

Þorsteinn Hjartarson, fræðslustjóri Sveitarfélagsins Árborgar