3.9 C
Selfoss
Home Fréttir Hvað er grunnmenntabrú?

Hvað er grunnmenntabrú?

0
Hvað er grunnmenntabrú?
Fjölbrautaskóli Suðurlands. Ljósmynd: ÖG.

Fjölbrautaskóli Suðurlands tekur á móti öllum nemendum sem óska eftir skólavist að lokinni grunnskólagöngu. Skólinn hefur einkunnarorðin fjölbreytni, sköpun og upplýsing að leiðarljósi og leggur áherslu á að allir nemendur geti stundað nám við sitt hæfi. Nám á grunnmenntabrú er námstilboð fyrir nemendur sem fá D í lokaeinkunn í einni eða fleirum kjarnagreinum (íslenska, stærðfræði og enska) við lok 10. bekkjar. Markmið náms á brautinni er að nemendur ljúki upprifjunaráföngum í kjarnagreinum en að þeim loknum uppfylla þeir inntökuskilyrði á allar námsbrautir skólans. Sérstaða Grunnmenntabrúar er aukið utanumhald við nemendur, heimanámsaðstoð tvisvar í viku á skólatíma og reglulegt samráð við forráðamenn. Nemendur fá kennslu í námstækni- og starfsfræðslu, þar sem mikil áhersla er lögð á sjálfsþekkingu og sjálfsstyrkingu þeirra.

Grunnmenntabrú hóf göngu sína með þessu fyrirkomulagi á haustmisseri 2016, eftir styrkveitingu frá Menntamálaráðuneytinu. Niðurstöður kannana sem umsjónarmenn brautarinnar lögðu fyrir forráðamenn og nemendur við lok haustannar gefa vísbendingar um ánægju með námstilboðið. Ríflega helmingur þeirra nemenda sem svöruðu könnuninni telja að þeir hafi eflst sem námsmenn ásamt því að 70% þeirra telja að líðan sín hafi batnað eftir að þeir hófu námið. Niðurstöður meðal forráðamanna gefa sömu vísbendingar.

Við viljum hvetja forráðamenn nemenda sem eru að ljúka námi í grunnskóla til að kynna sér námstilboð brautarinnar. Með upplýstu vali á námsbraut eru auknar líkur á góðri aðlögun við skil grunn- og framhaldsskóla sem er nemendum mikilvægt við þessi tímamót. Greinarhöfundar eru umsjónaraðilar brautarinnar og veita fúslega nánari upplýsingar um nám á grunnmenntabrú.

Fyrir hönd Fjölbrautaskóla Suðurlands

Bjarney Sif Ægisdóttir náms- og starfsráðgjafi og Jóhanna Guðjónsdóttir sérkennari