Umræðan um fátækt fólk kemur alltaf reglulega upp á yfirborðið. Öll erum við sammála um að sá er veruleikinn og einnig að það sé ekki líðandi að tæp 10 % barna líði skort á Íslandi.
En það virðist vera með fátækt í íslensku samfélagi eins og óhreinu börnin hennar Evu. Enginn vill vita af fátæktinni þrátt fyrir að 7 til 9 % þjóðarinnar búi við þetta böl og um 5.000 manns við sára fátækt.
Fátæktarböl
Mikil hætta er á að fátækt gangi á milli kynslóða og mörgum reynist erfitt að komast upp úr fátæktargildrunni, hafi þeir eitt sinn lent í henni. Helstu áhættuhópar eru tekjulágt einhleypt fólk og einstæðir foreldrar með börn og aldraðir og öryrkjar. Fátækt fólk er að finna í öllum aldurshópum en staða á húsnæðismarkaði , tekjur og heilsufar eru lykilþættir í því hvernig fólki gengur að framfleyta sér.
Afleiðingar fátæktar eru margvíslegar en allar vondar og þungbærar þeim sem fyrir þeim verða. Fátækt birtist meðal annars í því að fólk getur ekki búið í mannsæmandi húsnæði og fátækt leiðir til þess að fólk hefur ekki efni á hollu fæði eða ráð á tómstundaiðju. Þekkt er að efnaminna fólk lætur hjá líða að sækja ýmsa heilbrigðisþjónustu og það hefur ekki efni á að taka sér frí með fjölskyldu sinni. Ýmis efnisleg gæði sem flestum þykja sjálfsögð standa ekki fátæku fólki til boða eins og bíll og ýmis algeng heimilistæki.
Óvænt útgjöld, svo sem vegna veikinda eða atvinnumissis, setja fjárhag fátækra yfirleitt úr skorðum og hæglega myndast vítahringur skorts sem erfitt er að rjúfa því ekkert má útaf bregða svo skuldir safnist ekki upp.
Tregðulögmál kjarabótanna en tækin eru til
Það hefur reynst þrautin þyngri að ná fram kjarabótum fyrir þau lægst launuðu. Gjarnan er litið svo á að léleg kjör þeirra séu forsenda fyrir efnahagslegum stöðugleika og fátæktin þannig gerð að þannig velferðargrunni alls samfélagsins. Þetta viðhorf birtist til dæmis skýrt í ábendingum og aðvörunum Seðlabanka Íslands um að krafa verkalýðssamtaka um 300.000 króna lágmarkslaun ógnaði stöðugleika í íslensku hagkerfi. Þar er mönnum greinilega alveg ljóst hverjir eigi að bera byrðarnar.
Við höfum framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara og neysluviðmið Velferðarráðuneytisins sem gefa vísbendingar um hvað kostar að framfleyta sér. Þær upphæðir eru langt frá þeim raunveruleika sem fjöldi fólks býr við í kjörum svo þar fer ekki saman raunveruleg framfærsluþörf og kjör fjölda fátæks fólks og barna. En við höfum tækin til að afla vitneskju um fátækt meðal landsmanna og við höfum úrræðin til að vinna bug á henni. Notum þau.
Samábyrgð og jöfnuður eru óvinir fátæktarinnar – vantar vilja til breytinga?
Það getur enginn skorast undan ábyrgð þegar fátækt er annars vegar. Samfélag okkar er ríkt og við búum vel að verðmætum auðlindum. Það er nóg til skiptanna. Við hvorki eigum né þurfum að líða að fólk geti ekki lifað hér mannsæmandi lífi sökum fátæktar.
Við berum öll ábyrgð á því að gera betur og koma í veg fyrir fátækt í okkar ríka landi. Efnahagur þjóðarbúsins hefur sjaldan verið betri en misskiptingin hefur því miður aukist samhliða ofurgróða sumra þjóðfélagshópa.
Stjórnvöld, sveitarfélög, stéttarfélög, félagasamtök og hvert og eitt okkar verða að beita tiltækum úrræðum til að koma í veg fyrir félagslegan ójöfnuð og fátækt. Það er vissulega ekkert náttúrulögmál að einhver hluti þjóðarinnar þurfi að búa við fátækt eða örbirgð heldur er það samfélagsmein sem unnt er að uppræta.
Við getum upprætt fátækt hér á landi ef við svo kjósum. Við eigum til þau úrræði sem þörf er á og þekkingin á því hvernig unnt er að koma í veg fyrir fátækt liggur fyrir. Fjármagnið er til. Er það kannski svo að við höfum allt nema pólitískan vilja til að ganga rösklega til verka gegn þeirri þjóðarskömm sem fátækt er innan um ríkidæmi okkar?
Það yrði þó okkur öllum til góða að jöfnuður aukist og allt fólk geti búið hér við sómasamleg kjör og mannlega reisn.
Lilja Rafney Magnúsdóttir, alþingismaður NV kjördæmis.