3.9 C
Selfoss

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fór fram í Aratungu í Reykholti

Vinsælast

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar var haldin fimmtudaginn 9. mars sl. í Aratungu. Bláskógaskóli í Reykholti hélt keppnina í ár og var öll umgjörð hátíðarinnar til fyrirmyndar.

Þetta er 21 árið sem Stóra upplestrarkeppnin er haldin en keppnin hefst ár hvert á degi íslenskrar tungu 16. nóvember. Megin tilgangur keppninnar er að vekja athygli og áhuga á lestri, að læra að njóta þess að lesa og að efla virðingu fyrir málinu og sjálfum sér.

Sex skólar tóku þátt í keppninni en það eru nemendur úr 7. bekk sem taka þátt. Skólarnir sem tóku þátt voru Bláskógaskóli Laugarvatni, Bláskógaskóli Reykholti, Flóaskóli, Flúðaskóli, Kerhólsskóli og Þjórsárskóli. Tveir nemendur komu frá hverjum skóla og lásu þeir fyrst brot úr sögunni Blái hnötturinn eftir Andra Snæ Magnason. Því næst lásu allir ljóð eftir Steinunni Sigurðardóttur og loks lásu nemendur ljóð að eigin vali. Allir tólf þátttakendurnir stóðu sig með mikilli prýði.

Úrslitin urðu þau að í 1. sæti var Óskar Snorri Óskarsson Flúðaskóla, í 2. sæti var Hallgerður Höskuldsdóttir Flóaskóla og í 3. sæti var Valdimar Örn Ingvarsson Þjórsárskóla.

Á hátíðinni voru tónlistaratriði frá Tónlistarskóla Árnesinga. Sigríður Mjöll Sigurðardóttir nemandi í Bláskógaskóla í Reykholti spilaði á gítar, Hringur Karlsson úr 7. bekk Flúðaskóla og Þrándur Ingvarsson úr 6. bekk Þjórsárskóla spiluðu á saxófón og píanó og Jóna Kolbrún Helgadóttir lék á píanó.

Í aðdraganda lokahátíðarinnar var haldin teiknisamkeppni um mynd á boðskort hátíðarinnar í ár en þar gátu nemendur sent inn sínar myndir. Höfundur myndarinnar sem valin var fékk viðurkenningu, gjöf og innrammað boðskort. Vinningshafinn er María Elísa Aradóttir nemandi í 7. bekk, Bláskógaskóla Laugarvatni.

Í hléi voru veitingar í boði Bláskógaskóla í Reykholti. Gestir hátíðarinnar voru afar ánægðir með góðan upplestur, hljómfögur tónlistaratriði og góðar veitingar.

Nýjar fréttir