4.5 C
Selfoss
Home Fréttir Af verðeignakönnunum

Af verðeignakönnunum

0
Af verðeignakönnunum
Valdimar Guðjónsson Flóahreppi.

Það hefur komið mér á óvart hve margir eru hissa á bókun í sveitarstjórn Flóahrepps um félagsheimilið Félagslund fyrir nokkru. Slíkt nær langt út fyrir sveitarfélagið og ég sem hélt að þetta væri bara „lókal“ undrun. Að vísu berast aðeins misvísandi upplýsingar hversu mikil alvara er að baki varðandi sölu hússins.

Í mínum augum er hér um ákveðna nærþjónustu að ræða, aðgengi fyrir íbúa að ágætu skuldlausu félagsheimili, með þeirri starfsemi og aðstöðu sem á slíkum stöðum er. Hefur slíkt á þessu svæði verið til staðar í rúma öld. Húsið sem reis 1911 hét reyndar Bjarmaland og stóð á núverandi þéttbýlissvæði (Brandshúsum) sem er í nágrenni Félagslundar.

Eftir velheppnaða sameiningu hreppanna hér um árið hefur nefnilega verið meira „fjærþjónusta“ héðan úr gamla Bæjarhrepp séð. Heilmikil ferðalög fyrir börnin í skólann frumstæða vegi, og enn lengra í leikskólann og á hreppskrifstofuna. En allt hefur það gengið vel, og gekk í gegn ágreiningslaust á sínum tíma. Ég ætla jákvæðan hug Gaulverja til þess verkefnis hafi skipt máli í heild.

Hallarekstur á félagsheimilinu er sagt. Hvar stóð að félagsheimilin yrðu rekin með hagnaði? Hvaða fasteignir sveitarfélaga eru reknar með beinum hagnaði? Hversu víða eru félagsheimili til sveita rekin með hagnaði? Skal ekki segja. En að hluta til er þarna gömul arfleifð. Fólk er enn með í huga þegar fjölmenn sveitaböll voru um öll héruð flestar helgar og fúsar hendur hjálpuðu í sjálfboðavinnu til með fjáröflun og rekstur nýbyggðra félagsheimila. Þá voru aðrir tímar. Kannski náðust örfá ár í plús. Þessi meinti halli nú er síðan magnaður upp með bókhaldsformúlum sveitarfélaganna, sem eru ágætar fyrir sinn hatt, en þar eru að hluta tilbúnar tölur (þó taldar séu með í rekstri). Nýting hússins til útleigu hefur verið góð, þó aðeins hafi dregið úr í lok síðasta árs.

Húsið þarfnast viðhalds er sagt. Það er að mestu leyti rangt og Flóahreppur hefur sinnt því með ágætum. T.d. spara varmadælur kyndingarkostnað. Minnst er á gólfefni. Ekki veit ég hvað það er, en gegnheilt parket er á sal, ekki illa farið, og hefur þann kost að má slípa ótal sinnum. Málningu utandyra á 10 ára fresti er óþarfi að búa til dramatik um. Jafnvel þó múrari þurfi áður að yfirfara einhverja bletti með múrblöndu í poka.

Að lokum þetta. Mest er ég hissa hve sumir sveitarstjórnarmenn urðu hissa á hvernig tíðindin fóru í mannskapinn hér í kring. Þetta eru vonandi ekki alvarleg blankheit á stuttum tíma. Ekki voru allavega blankheit þegar byggður var nánast nýr leikskóli, þó annað húsnæði undir hann væri til, fyrir nokkrum árum. En pínulítið kaldhæðnislegt er að til að byggja hann voru notað lausafé sem Gaulverjabæjarhreppur kom með inn í sameiningu. En vel tókst til með þá byggingu og sómi er að.

Hitt varðandi Félagslund er, að hvergi er meitlað í stein að rekstrarform þurfi að vera óbreytt. Þar væri væntanlega mögulegt að leigja út reksturinn líkt og víða er gert, hluta úr ári eða lengur, þó með afnotarétti íbúa Flóahrepps.

Valdimar Guðjónsson.