-5 C
Selfoss

Væri til í að sjá verkið í þriðja sinn

Vinsælast

Nú er ég búinn að sjá leikritið „Láttu ekki deigan síga Guðmundur“ tvisvar í flutningi félaga í Ungmennafélagi Gnúpverja. Ástæða þess að ég fór aftur var einfaldlega sú, að verkið er ákaflega skemmtilegt. Mikill léttleiki og glaðværð leikaranna smita út frá sér til áhorfenda. Unga fólkið vinnur ótrúlega leiksigra í bæði söng og leik innan um reyndara fólk. Mörg hnittin atriði eru í þessu verki þar sem gert er grín að tíðarandanum sem umlék svonefnda 68 kynslóð. Höfundarnir Edda Björgvinsdóttir og Hlín Agnarsdóttir eru þekktar fyrir gamanmál sem komið er vel til skila í þessu verki. Vilborg Halldórsdóttir er leikstjóri í þessu verki. Ég ræddi lítillega við hana eftir frumsýninguna og spurði hana hvað hefði komið henni mest á óvart við uppsetninguna á verkinu. Hún svaraði „Hvað þessi sveit er rík af hæfileikafólki. Þau geta bæði leikið og syngja raddað.” Hún nefndi einnig að Hannes Einar ljósameistari væri aðeins 16 ára og stýrði lýsingunni í verkinu með stafrænni uppsetningu eins og í atvinnumannaleikhúsum. Hljómsveitin skapar skemmtilega stemningu með því að spila bæði fyrir sýningu og eins áður en sýningin hefst eftir hlé. Sagan gengur út á að aðalpersónan Guðmundur, sem leikinn er af Ingvari Hjálmarssyni, er mikill kvennamaður, en hann er svo óheppinn að verða leiksoppur kvenna síendurtekið. Hann á börn með Höllu sem leikin er af Helgu Höeg Sigurðardóttur. Hún leikur og syngur eins og engill, dettur aldrei úr hlutverki. Eldra barnið Garpur Snær er leikinn af Nikulási Hansen Daðasyni. Hann fer hreinlega á kostum aftur og aftur, er vægast sagt, drepfyndinn. Sýningin gengur svo út á samskipti hans, aðallega við Guðmund föður sinn annars vegar og hins vegar uppruna kvennabaráttunnar. Persónusköpun og túlkun margra hlutverka kemst mjög vel til skila hjá öllum leikurum. Þeir sem standa utan sviðs og styðja verkefnið standa sig líka vel. Innhringing verksins hefst þegar dyravörðurinn skellir hurðinni með látum. Í hléi er hægt að fá sér hressingu og spjalla við sveitungana. Leikrit hafa verið sett upp í Gnúpverjahreppi í 100 ár. Það er til fyrirmyndar hve mikil gróska er í menningu sveitarinnar. Það er okkar hinna að sækja þessa viðburði og halda lífi í menningunni. Takk fyrir mig. Ég væri til í að sjá verkið í þriðja sinn.

Bjarki Harðarson

Nýjar fréttir