1.7 C
Selfoss

Margmála ljóðakvöld í Listasafni Árnesinga

Vinsælast

Bókabæirnir Austanfjalls og Gullkistan á Laugarvatni bjóða til Margmála ljóðakvölds í samvinnu við Listasafn Árnesinga þriðjudaginn 21. mars næstkomandi en sá dagur er hvort tveggja í senn alþjóðlegur dagur ljóðsins og baráttudagur gegn rasisma. Dagskráin hefst klukkan 19.30 í kaffistofu safnsins og stendur til 21:30. Heiti hennar vísar til þess að ljóð verða flutt á mörgum tungumálum eða móðurmálum þeirra sem flytja en jafnframt fylgir íslensk þýðing eða endursögn á ensku. Flytjendur ljóðanna er fólk sem hefur flust til Íslands til lengri eða skemmri dvalar og af ýmsum ástæðum. Auk þess að flytja ljóðin er sagt frá innihaldi ljóðanna og höfundum þeirra. Tilgangurinn er fyrst og fremst að virkja ljóðið, efla og þroska samband okkar við það og að fólk komi saman af ólíku þjóðerni og deili með sér skáldskap, skemmtun og sameiginlegri reynslu. Auk þessa má geta að yfirstandi myndlistarsýning Listasafnsins er samsýningin Nautn / Conspiracy of Pleasure en þar er að finna tvö verk sem tengja má beint við andstöðuna gegn rasisma auk þess sem mörg verkanna hafa á sér ljóðrænan blæ.

Meðal þeirra sem flytja ljóð og segja frá eru rithöfundarnir Sevda Khatamian frá Íran og Tamara Drazic frá Ástralíu en þær dvelja á Gullkistunni á Laugarvatni, ljóðskáldið Pjetur Hafstein Lárusson, Fadwa Alsoufi frá Sýrlandi, Estelle Burgel frá Frakklandi, María Anna Maríudóttir frá Póllandi, Ronja Alexandra Valdimarsdóttir frá Finnlandi og Elísabet Hermundardóttir frá Svíþjóð/Íslandi. Umsjónarmenn dagskrárinnar eru Harpa Rún Kristjánsdóttir og Jón Özur Snorrason.

Nýjar fréttir