-3.6 C
Selfoss

Afmælistónleikar Karlakórs Hreppamanna

Vinsælast

Árið 1997 bættist Karlakór Hreppamanna í flóru íslenskra karlakóra og hefur starfað óslitið síðan. Í tilefni af tuttugu ára afmælinu verður meira haft við á vortónleikum en áður þar sem þrír aðrir karlakórar verða þátttakendur í þeim. Afmælistónleikar verða haldnir í íþróttahúsinu á Flúðum, í Selfosskirkju og í Víðistaðakirkju í Hafnarfirði. Efnisskráin saman stendur af úrvali laga og verka sem kórinn hefur flutt gegnum tíðina. Einsöngvari á öllum tónleikunum verður Guðmundur Karl Eiríksson baríton.

Það var 1. apríl fyrir réttum tuttugu árum sem á þriðja tug karla kom saman á Flúðum ásamt Edit Molnár og ákveðið var að stofna kór. Æfingar hófust af krafti og strax í lok mánaðarins söng kórinn fyrst opinberlega og hefur síðan verið virkur í tónlistarlífi Árnesinga. Edit Molnár hefur verið stjórnandi kórsins frá upphafi og Miklós Dalmay píanóleikari og hafa þau bæði reynst kórnum mesti happafengur fyrir hæfni í starfi og listrænan metnað. Kórinn er nú með fjölmennara móti þar sem fyrrum félagar og nýir hafa slegist í hópinn í vetur.

Tónleikaröðin byrjar á Flúðum 1. apríl kl. 16:00, á afmælisdaginn. Með kórnum á þeim tónleikum verða Fóstbræður úr Reykjavík. Næstu tónleikar verða í Selfosskirkju 3. apríl kl. 20:00 þar sem Karlakór Selfoss kemur til liðs við kórinn og loks slást Þrestir í hópinn í Víðistaðakirkju í Hafnarfirði 5. apríl kl. 20:00.

Efnisskrá tónleikanna samanstendur af fjölbreytilegum lögum, íslenskum og útlendum sem kórinn hefur flutt á vortónleikum á ferli sínum. Þar er að finna klassísk, íslensk karlakóralög, m.a. Sefur sól hjá Ægi eftir Sigfús Einarsson og Nú sigla svörtu skipin eftir Karl Ottó Runólfsson ásamt þekktum kórum tónbókmenntanna, svo sem Hermannakórnum úr Faust eftir Gounod og Fangakórnum úr Nabucco eftir Verdi. Þá er föst hefð fyrir því í kórnum að syngja lög eftir Hreppa-tónskáldið Sigurð Ágústsson og út af þeirri venju verður ekki brugðið nú. Árnesþing eftir Sigurð skipar öndvegi tónleikanna, Glerbrot, Suðurnesjamenn og Sveitin mín fylgja á eftir.

Nýjar fréttir