-5.5 C
Selfoss

Ég les hægt til að njóta orðanna betur

Vinsælast

Birkir Hrafn Jóakimsson, lestrarhestur Dagskrárinnar, er alinn upp á Selfossi og niðri við strönd. Hann er stúdent frá FSu, verkfræðingur að mennt og starfar í framkvæmdadeild Vegagerðarinnar. Hann er kvæntur Jóhönnu Vilborgu Ingvarsdóttur frá Höfn í Hornafirði og eiga þau tvö börn, Bryndísi Maríu og Kormák Hrafn. Þau búa í Bústaðahverfinu í Reykjavík.

Hvaða bók ertu að lesa núna og hvað vakti áhuga þinn á henni?
Ég byrjaði um daginn á 1984 eftir George Orwell. Sú ákvörðun á sér í raun einfaldar skýringar í atburði síðustu mánaða vestur í Ameríkuhreppi. Ég er að vísu að lesa ýmsar fleiri bækur þessa dagana en þar má nefna Stríð og frið eftir Lév Tolstoj, SPQR: A History of Ancient Rome eftir Mary Bears sem fjallar um Rómarveldi frá upphafi fram á 4. öld og Bushido, the Soul of Japan eftir Inazo Nitobe þar sem hann reynir að útskýra heimspeki Samuræja fyrir Evrópubúum og hvernig Japanir reyna að lifa eftir henni fyrir í kringum aldamótin 1900.

Getur þú lýst lestrarvenjum þínum?
Ég les á hverju einasta kvöldi, held að ég myndi ekki sofna annars. Einnig reyni ég líka að lesa á hverju kvöldi fyrir börnin mín. Ég les frekar hægt en tel það vera til þess að njóta orðanna betur ekki ólíkt því að njóta góðs matar en ekki gúffa honum í sig.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?
Þær eru af ýmsum toga. Ég les mikið um sögu, tónlist og stjórnmál. Síðan get ég ekki farið í gegnum spurningalista um bækur án þess að minnast á japanska rithöfundinn Haruki Murakami. Ég las fyrst skáldsögu hans Norwegian Wood og varð svo heillaður af hugarheimi hans að ég las restina nánast í einni beit. Hann hefur gefið út þrettán skáldsögur.

Getur þú sagt frá bók sem hafði sérstaklega mikil áhrif á þig?
Verð að nefna þrjár bækur sem eru þó af sama meiði. Þetta eru Gróður jarðar eftir Knut Hamsun, Sjálfstætt fólk eftir Halldór K. Laxness og Hundrað ára einsemd eftir Gabríel García Márquez. Þessar bækur gerðu mér grein fyrir því hvernig skáldsögur með sama grunnstef geta verið gjörólíkar og hvernig orðin geta framkallað mismunandi töfra þó það sé í raun verið að fjalla um sama eða svipað viðfangsefni.

Hver er uppáhalds barnabókin þín og hvers vegna?
Kalli á þakinu eftir Astrid Lindgren. Hann er fríður og vitur og hæfilega feitur maður á besta aldri. Kannski að maður samsami sig eitthvað með honum. Börnin mín hlæja ennþá með mér en veit svo sem ekki hversu lengi það á eftir að endast.

Geta bækur breytt viðhorfi manna? Hvernig?
Já, engin spurning. Lestur góðra bóka getur auðveldlega leitt til viðhorfsbreytinga hjá fólki. Til að mynda ef menn lesa sagnfræði um uppgang fasisma í Evrópu á fyrri hluta 20. aldar ættu þeir að sjá að það eru mörg vítin að varast. Góðir rithöfundar eru líka oft og tíðum mestu og bestu samfélagsrýnar síns tíma. Í því sambandi get ég bent þeim sem að geðjast að forsetagarminum í BNA að lesa 1984 eftir George Orwell.

Nýjar fréttir