-5.8 C
Selfoss

Sérverslanir á Selfossi slá í gegn

Vinsælast

Breytingar eru að eiga sér stað í verslunarháttum margra. Fólk vill í auknu mæli fá þjónustu og sérfræðiaðstoð við val á vöru og kaupa eitthvað sérstakt, gjarnan eitthvað sem fáir eða engir aðrir eiga.

Á Selfossi eru nú nokkrar verslanir sem sérhæfa sig í einstakri þjónustu og eru viðskipti hjá þeim alltaf að aukast. Viðskiptavinir leggja margir lykkju á leið sína til að koma við í þessum búðum og ekki er óalgengt að þeir geri sér sérstaka ferð á Selfoss til að komast í þessar verslanir. Sumar þeirra opna sérstaklega utan hefðbundins opnunartíma til að sinna hópum sem þess óska og vekur sú þjónusta alltaf mikla lukku. Sem dæmi um sérhæfðar verslanir sem bjóða fagþjónustu má nefna Hannyrðabúðina, Lindina, Evítu, Mótívó, Hosíló, Fjallkonuna, Freistingasjoppuna, Baldvin og Þorvald, Alvörubúðina, Barón, Föndurskúrinn, Kastalann, Strikið, Bókakaffið og fleiri. Og allar eiga þessar verslanir það sameiginlegt að bjóða mikið úrval af vöru sem hvergi fæst annars staðar.

Ekki er óalgengt að hringt sé í Hannyrðabúðina og spurt hvort við rekum ekki útibú á höfuðborgarsvæðinu og er því alltaf svarað neitandi með bros á vör. Þá telja þeir fæstir eftir sér að skreppa á Selfoss til að nálgast einstakar gersemar og gera viðskiptavinir sér æ oftar sérstaka ferð á Selfoss til að versla. Þetta er vaxtartækifæri sem við eigum ekki að láta fram hjá okkur fara. Gestirnir fara yfirleitt í nokkrar verslanir og enda svo margir á að fá sér eitthvað í gogginn.

Selfoss er mikill þjónustubær og hingað leitar fólk víða að, safnsvæðið er stórt. Við eigum að leggja okkur fram við að efla litlu verslanirnar með sérhæfðu þekkinguna. Verslanir þar sem afgreiðslufólk ber skynbragð á vörunum sem það er að selja. Þessar verslanir skipta miklu máli í því að gera Selfoss að miðstöð þjónustu og um leið að hjarta Suðurlands.

Nýjar fréttir