2.3 C
Selfoss

Rósakaffi opnað í Hveragerði

Vinsælast

Nýtt kaffihús sem ber nafnið Rósakaffi var opnað í Hveragerði sl. laugardag. Eigendur kaffihússins eru Ingibjörg Sverrisdóttir ásamt syni sínum Gunnari Þórbergi Harðarsyni og tengdadóttur Kristrúnu Hildi Bjarnadóttur.

Ingibjörg Sverrisdóttir á opnunarhelginni í Rósakaffi. Ljósmynd: ÖG.
Ingibjörg Sverrisdóttir á opnunarhelginni í Rósakaffi. Ljósmynd: ÖG.

„Við leigjum húsnæðið af eigendum Hverablóms en þau eiga gjafavöruverslunina og rósastöðina sem er hér á sama stað. Við opnuðum á laugardaginn og það var bara strax alveg svakaleg traffík þó við værum ekkert búin að auglýsa nema rétt aðeins á facebook. Við höfum fundið að bæði Hvergerðingar og aðrir hafa beðið eftir þessu og að svona stað hefur vantað hér,“ segir Ingibjörg.

Hún var spurð hvað kemur staðurinn komi til með að bjóða upp á.

„Við erum með grill og það verða hamborgarar og pítur. Svo verðum við með samlokur og breiðlokur eins og voru í Hverabakaríi, með alls kyns áleggi, kannski ekki ólíkt pizzum á vissan hátt. Svo verðum við með heilmikið brauð m.a. frá Litlu brauðstofunni hér í Hveragerði en þau eru m.a. með súrdeigsbrauð. Svo verðum við með kökur og alls kyns ís og súpur. Og rétt dagsins á virkum dögum. Þannig að þetta verður margþætt og allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.

Við reynum að hafa svona rósaþema hérna, köllum húsið allt Rósagarðinn og þá erum við að tala bæði um blómabúðina og kaffihúsið. Kaffihúsið heitir Rósakaffi. Súpubrauðin okkar eru t.d. með rósablöðum.“

Ingibjög bætti við að þau ætli að setja upp pall fyrir sunnan húsið með hækkandi sól og að þar ætti að komast fyrir þó nokkuð af fólki. „Svo vonum við bara að við fáum gott sumar því þá er hægt að nýta hann vel,“ sagði Ingibjörg að lokum.

Nýjar fréttir