-1.6 C
Selfoss

Rúmum 180 milljónum úthlutað úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til staða á Suðurlandi

Vinsælast

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ráðherra ferðamála hefur staðfest tillögu stjórnar Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða um úthlutun úr sjóðnum. Alls eru veittir styrkir til 58 verkefna hringinn í kringum landið og nemur heildarfjárhæð styrkja 610 milljónum króna. Þetta kemur fram á heimasíðu atvinnuvegaráðuneytisins. Þar segir enn fremur:

Að auki hefur ráðherra falið Ferðamálastofu að ganga til samninga við Vegagerðina um þróun á ölduspákerfi vegna Reynisfjöru og Kirkjufjöru. Tilgangurinn er að hægt verði að spá fyrir um hættulegar aðstæður, vara við þeim með sýnilegum hætti og mögulega grípa til aukinnar gæslu. Til þess að þetta sé mögulegt þarf að þróa spákerfi, framkvæma dýptarmælingar og setja upp ýmiss konar búnað. Þess er vænst að hægt verði að taka kerfið í notkun síðar á þessu ári. Fjármögnun verkefnisins er af fé sem sett var til hliðar af fjárveitingum Framkvæmdasjóðsins í þágu öryggismála og er gert ráð fyrir að kostnaðurinn verði um það bil 20 m.kr.

Hæsti styrkurinn í þessari úthlutun er að upphæð 60 m.kr. til verkefna í Landmannalaugum.

Með úthlutuninni í ár nemur heildarupphæð styrkveitinga úr sjóðnum 3,56 milljörðum króna.

Helstu úthlutanir til ferðamannastaða á Suðurlandi:

Ríkisaðilar/stofnanir

Skógræktin – frágangur við Hjálparfoss.
Kr. 1.200.000, – styrkur í lokafrágang á bílaplani, jöfnun jarðvegs í kringum salernishús og uppgræðslu, áburðardreifingu í jaðra stíga og á svæði sem mikill ágangur er af ferðafólki.

Skógræktin – Uppbygging og viðhald gönguleiða á Þórsmerkursvæðinu.
Kr. 15.000.000, – styrkur til uppbyggingar og viðhalds gönguleiða á Þórsmerkursvæðinu til að vernda náttúru, bæta aðgengi og auka öryggi ferðamanna.

Skógræktin – viðhald gönguleiða og áningarstaðar á Kirkjubæjarklaustri.
Kr. 1.500.000, – styrkur til áframhaldandi viðhalds, endurbóta, uppgræðslu og afmarkanna á gönguleiðum í Klausturskóginum og ofan við Systrafoss.

Umhverfisstofnun – Endurnýjun göngustígs frá Gullfosskaffi niður að hringtorgi.
Kr. 8.000.000, – styrkur til að breikka göngustíg og gera hann færan fyrir snjóruðningstæki.

Umhverfisstofnun – Framhald framkvæmda við stíga og útsýnispalla við Geysi.
Kr. 30.000.000, – styrkur til að lagfæra göngustíga á Geysissvæðinu og minnka álag.

Umhverfisstofnun – Laugavegurinn, endurbættur samkvæmt úttekt.
Kr. 12.000.000, – styrkur til að afmarka, lagfæra og breikka göngustíg á Laugaveginum undir Brennisteinsöldu.

Sveitarfélög

Flóahreppur – Urriðafoss – viðhald áningarstaðar, auknar merkingar.
Kr. 1.500.000, – styrkur til að bæta við merkingar á fleiri tungumálum.

Hrunamannahreppur – Hrunalaug, umhverfi og aðkoma.
Kr. 2.000.000, – styrkur til að endurhlaða steinveggi í efri hluta Hrunalaugar og byrja á stígagerð frá bílastæði að Hrunalaug í þeirri gönguleið sem nú þegar er fyrir hendi.

Rangárþing eystra/Katla jarðvangur – breyting á gildandi deiliskipulagi á Skógum.
Kr. 1.600.000, – styrkur til að breyta gildandi deiliskipulagi Skóga til endurbóta og aðkomu fyrir ferðamenn við Skógafoss.

Rangárþing ytra – Landmannalaugar 1. áfangi.
Kr. 60.000.000, – styrkur til að hefja framkvæmdir við nauðsynlegar rofvarnir, nýtt bílastæði og uppbyggingu aðstöðu við Námakvísl samkvæmt verðlaunatillögu í samkeppni.

Skaftárhreppur – bættir göngustígar í Fjaðrargljúfri.
Kr. 10.900.000, – styrkur til að bæta aðgengi, vernda náttúru og auka öryggi með stígagerð og breytingu á skipulagi.

Sveitarfélagið Ölfus – endurbætur á stígakerfi í Reykjadal í Ölfusi.
Kr. 26.175.000, – styrkur til að bregðast við aðkallandi vandamálum í náttúruvernd og öryggismálum á mjög vinsælu ferðamannasvæði.

Vestmannaeyjabær – Eldheimar – gönguleið um nýja hraunið í Vestmannaeyjum.
Kr. 7.500.000, – styrkur til að gera góða göngustíga frá miðbæ Vestmannaeyja að Eldheimum og Eldfelli.

Einkaaðilar

Brynjar Sigurðsson – Faxi umhverfi, aðgengi og öryggi.
Kr. 2.000.000, – styrkur til að bæta göngustíga merkingar og innviði við fossinn Faxa.

Efri-Reykir ehf. – Brúarárfoss, gönguleið.
Kr. 1.300.000, – styrkur til að endurbæta gönguleið frá bílastæði upp með ánni að Brúarfossi, breikka moldargötur og setja í möl eða kurl.

Nýjar fréttir