-6.7 C
Selfoss
Home Fréttir Leiðsögn um sýninguna Nautn með Eygló og Helga á sunnudag

Leiðsögn um sýninguna Nautn með Eygló og Helga á sunnudag

0
Leiðsögn um sýninguna Nautn með Eygló og Helga á sunnudag
Eygló Harðardóttir og Helgi Hjaltalín Eyjólfsson.

Hvar liggja mörkin á milli þess að leggja eðlilega og manneskjulega rækt við unað og ánægju annars vegar og hins vegar þess að gangast þessum eiginleikum hömlulaust á vald? Þetta eru spurningar sem sýningin Nautn/Conspiracy of Pleasure tekur m.a. til skoðunar. Þar eru ýmis lögmál og birtingarmyndir nautna tekin fyrir svo sem nautn eins og hún birtist í neyslusamfélagi samtímans, sem árátta, neysla og/eða erótík en líka líka nautnin sem fylgir listsköpun í glímunni við efni og áferð. Sex listamenn eru höfundar verkanna og á laugardaginn fara listamennirnir Eygló Harðardóttir og Helgi Hjaltalín Eyjólfsson með gestum um sýninguna, segja frá sínum verkum og svara spurningum. Í leiðsögn með listamönnum verða oft til áhugaverðar samræður sem gefa gagnlegar upplýsingar.

Eygló vinnur fyrst og fremst með þá munúð sem felst í listsköpuninni og vinnunni með hráefnin sem einkum er litir og pappír. Með vandlega útfærðri þrívíðri innsetningu lætur hún verkin njóta sín og höfðar til skynjunar áhorfenda. Það er síðan þeirra að halda þeirri munúðarfullu sköpun áfram með eigin hugarflugi.

Helgi er pólitískari í sínum verkum sem eru tvær innsetningar. Hann sækir myndefni úr fréttamiðlum og við sögu koma vígasveitir, áróður, mótun þjóða, nautnahyggja þar sem útlit skiptir máli frekar en innihald, mennska og ómennska svo eitthvað sé nefnt. Verkin eru útfærð af miklum hagleik en vekja áleitnar hugrenningar.

Síðasti sýningardagur er 26. mars og þá verða einnig tveir listamenn með leiðsögn. Frekari upplýsingar um sýninguna má sjá á www.listasafnarnesinga.is.

Aðgangur að safninu og leiðsögninni er ókeypis og allir velkomnir.