-6.6 C
Selfoss
Home Fréttir Fjölbreytt úrval námskeiða hjá Landbúnaðarháskólanum

Fjölbreytt úrval námskeiða hjá Landbúnaðarháskólanum

0
Fjölbreytt úrval námskeiða hjá Landbúnaðarháskólanum
Guðríður Helgadóttir verður með námskeiðið „Gotterí úr garðinum“ í mars á Reykjum.

Árið fer vel af stað hjá Endurmenntun Landbúnaðarháskóla Íslands með mjög fjölbreyttu úrvali námskeiða víða um land. Í bland við „gamla slagara“ koma ný námskeið sem taka á nýjum málum og málaflokkum.

Á vorin eru hin s.k. grænu námskeið alltaf áberandi og þar búum við vel hjá skólanum að eiga mikinn mannauð þegar kemur að fyrirlesurum. Guðríður Helgadóttir verður með námskeið í mars á Reykjum sem við köllum „Gotterí úr garðinum“. Þar mun Gurrý fjalla um það hvernig á að skipuleggja matjurtargarðinn fyrir sumarið, hvaða tegundir á að velja, hvernig á að sá fyrir hinum ýmsu tegundum, koma þeim á laggirnar, hvað þarf að gera til að fá góða uppskeru og hvernig skal njóta uppskerunnar svo fátt eitt sé nefnt.

Námskeið um hina íslensku landnámshænu hafa verið vinsæl í vor og hefur Júlíus Már Baldursson landnámshænubóndi í Þykkvabænum nú þegar haldið námskeið á Reykjum og á Hvanneyri en stefnir svo norður í Eyjafjörð 18. mars og mun halda námskeið á Hrafnagilshverfi og annað í Reykjavík í lok apríl.

Jarðgerðarnámskeið verður haldið á Reykjum þann 18. mars og mun Gunnþór K. Guðfinnsson kenna safnhaugagerð og jarðgerð. Fleiri og fleiri sveitafélög eru farin að bjóða upp á lífrænar tunnur.

Rúningsnámskeið verður haldið á Hesti í Borgarfirði 13. og 14. mars, en nokkur ár eru síðan síðast var boðið upp á rúningsnámskeið og því kærkomið að fá Jón Eyjólfsson bónda á Kópareykjum í Borgarfirði til liðs við okkur í kennslu á rúningi.

Um nokkurt skeið hafa námskeið eins og Torf- og grjóthleðsla, Grjóthleðsla, Húsgagnagerð úr skógarefni, Tálgun og Trjáfellingar með keðjusög verið haldin. Öll þessi námskeið eru í boði á vorönninni og það er sammerkt með þessum námskeiðum að yfirleitt myndast biðlisti á þessi námskeið. Í ár bættum við nýju námskeiði við sem kallast Húsgagnagerð – unnið úr íslensku skógarefni. Um er að ræða sjálfstætt framhald en nú verður tekist á við stærri og meiri verkefni og spurningar.

Rétt fyrir páska verður síðan í boði nýtt námskeið sem við köllum Sumarbústaðurinn – sælureitur í sveitinni. Námskeiðið er þrískipt þar sem að Gurrý mun fjalla í upphafi um gróðursetningu út frá ýmsum sjónarhornum og þá bæði gróðursetningu á trjám, runnum, fjölæringum og matjurtum. Þá mun Ágústa Erlingsdóttir brautarstjóri skrúðgarðyrkjubrautar fjallað um jarðvegsbætur og grasflatir í bland við hellulagnir og önnur grá svæði. Í lokin mun Björgvin Örn Eggertsson skógfræðingur fjalla um grisjun og trjáfellingar.

Í maí þegar gróður verður kominn af stað mun svo Guðrún Bjarnadóttir náttúrufræðingur og handverkssona kenna á tveimur jurtalitunarnámskeiðum þar sem hún mun fjalla um litunarferlið frá upphafi til enda þegar notaðar eru íslenskar jurtir til litunar á ull.

Guðrún Lárusdóttir, endurmenntunarstjóri Lbhí