3.9 C
Selfoss

Ný dælustöð og borað eftir heitu vatni í Árborg

Vinsælast

Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar, var spurðu út í veitumál hjá sveitarfélaginu þ.e. hvað væri helst að frétta af þeim. Hún sagði að til standi að byggja dælustöð á gatnamótum Eyrabakkavegar og Gaulverjabæjarvegar þar sem beygt er að Stokkseyri. Þar eru um að ræða dælustöð fyrir hitaveituna og vatnsveituna sem byggð verður til að laga þrýsting á vatninu til Eyrarbakka og Stokkseyrar.

„Hún verður mikil bót hvað það varðar. Síðan er sveitarfélagið í ýmsum öðrum verkefnum tengt veitunum, þ.e. fráveitunni, vatnsveitunni og hitaveitunni. Það er t.d. verið að bora eftir heitu vatni í Laugardælum. Það er búið að bora þar niður á 1600 metra og bara ágætis horfur þar og spennandi að sjá hvað kemur út úr því,“ sagði Ásta.

Borað við brúarsporðinn
„Síðan er líka búið að vera að vinna að rannsóknarborunum hér á árbakkanum rétt við brúarsporðinn, „fyrir utan á“ eins og við segjum. Þar sjáum við að mælist talsverður hiti. Það er verið að kortleggja þetta aðeins betur með aðstoð helstu sérfræðinga í jarðhitamálum og meta hvar og hvort vænlegt er að bora dýpra og leita að vatni.“

Umhverfismat vegna hreinsistöðvar við Geitanes
„Innan fráveitunnar er verið að fara í umhverfismat vegna framkvæmda sem eru fyrirhugaðar vegna hreinsistöðvarinnar sem mun rísa við Geitanes niður undir flugvelli. Deiliskipulagsferli var komið vel áleiðis og talið að ekki þyrfti að fara í umhverfismat, byggt á þeim gögnum sem fyrir lágu. En eftir frekari rannsóknir á Ölfusá sem viðtaka fráveitu var niðurstaðan sú að það myndi þurfa að fara í umhverfismat og sú vinna er að byrja núna. Hún tekur um það bil eitt ár. Þannig að við verðum því miður að bíða aðeins með að halda áfram framkvæmdum við þetta brýna verkefni. Þetta er nauðsynlegur undanfari framkvæmdanna og varpar skýrara ljósi á umhverfisáhrifin.

Svo er líka unnið að öðrum verkefnum tengdum veitunum eins og að lengja sniðræsi við Suðurhóla svo hægt sé að halda áfram í gatnagerð í Austurbyggðinni. Einnig eru ýmis viðhaldsverkefni á döfinni, t.d. á lögnum í Kirkjuvegi, þannig að það er heilmargt í gangi,“ segir Ásta.

Nýjar fréttir