-9.2 C
Selfoss

Ný þjónustumiðstöð við Skeiðavegamót

Vinsælast

Þann 8. febrúar sl. samþykkti sveitarstjórn Flóahrepps nýtt deiliskipulag fyrir Bitru, nýja þjónustumiðstöð, sem fyrirhug­að er að reisa vestan við gatna­mót Skeiðavegar og Suðurlands­veg­ar. Tillagan hefur verið send til Skipulags­stofnunar og er þar til umfjöllunar.

Starfsemi nýju þjónustumið­stöðv­ar­innar verður þjónusta við vegfarendur og gesti. Þar verð­ur veit­inga­sala með veislusöl­um, auk aðstöðu til norður­ljósaskoðunar innanhúss og utan og minni háttar eldsneyt­is­sala í sjálfs­afgreiðslu. Full­byggð verður þjón­ustumið­stöð­in um 5.000 fer­metrar að stærð.

Byrjað verður á 1.000 fermetra bygg­ingu sem verður komið í rekstur á meðan restin verður byggð. Samhliða þjónustumið­stöð­inni verður byggð 750 fer­metra afþreyingarsetur og nú­tíma­leg upplýsingamið­stöð. Einnig er á teikniborðinu að byggja 1000 fermetra markaðs­torg þar sem fram­leið­endur í héraði geta haft aðstöðu og beinan aðgang að markaði. Allt verður þetta byggt fallega inn í landslagið á vistvænan hátt.

Uppfært 10.3.:
Rétt er að taka fram að breyting á deiliskipulagi fyrir Bitru, nýja þjónustumiðstöð, var samþykkt í sveitarstjórn Flóahrepps með þremur atkvæðum gegn tveimur. Tveir sveitarstjórnarmenn greiddu atkvæði gegn tillögunni og bókuðu eftirfarandi:
Við undirritaðar sjáum okkur ekki fært að samþykkja deiliskipulag að Bitru – þjónustumiðstöð í ljósi þess að um þekkt jarðsprungusvæði er að ræða. Fyrir breytingu aðalskipulags 4/9 2013 hafði allt jarðrask verið bannað á umræddu svæði. Ætlað er að á svæðinu verði geymslur fyrir olíur og bensín. En athygli er vakin á því að um grannsvæði, fjarsvæði, vatnsverndar er að ræða.
Svanhvít Hermannsdóttir, Rósa Matthíasdóttir.

Fundargerð sveitarstjórnar má sjá hér:

Nýjar fréttir