1.7 C
Selfoss

Nýtt og spennandi nám um svæðisleiðsögn á Suðurlandi

Vinsælast

Í byrjun september 2016 hófst nám í svæðisleiðsögn hjá Fræðslunetinu í samstarfi við Menntaskólann í Kópavogi. Námið er 22 einingar og gefur réttindi til að starfa sem leiðsögumaður á Suðurlandi. Rúmlega 20 einstaklingar stunda námið af kappi og stefnt er að útskrift í júní nk. Sumir í hópnum hafa reynslu af leiðsögn og eru því að bæta við sig þekkingu til þess að öðlast fullgild réttindi. Aðrir hyggja á nýjan starfsvettvang enda ástæða til að ætla að hagnýtt vottað nám nýtist vel samfara auknum ferðamannastraumi um Suðurland.

Námið byggir á námsskrá fyrir leiðsögunám sem gefin var út af Mennta- og menningarmálaráðuneytinu 2004. Þetta er hagnýtt nám sem tekur mið af ólíkum þörfum ferðaþjónustunnar. Kennt er á þriðjudags- og fimmtudagskvöldum í Fjölheimum á Selfossi en nemendur geta stundað námið alls staðar á Suðurlandi því kennt er í gegnum Skype og einnig notast við Moodle kennsluvef.

Stærstur hluti nemenda er á Selfossi en einnig sitja nemendur kennslustundir á Hvolsvelli og í Reykjavík. Allir fyrirlestrar eru teknir upp sem þýðir það að þeir eru nemendum aðgengilegir þegar þeir kjósa meðan á námi stendur.

Fram kemur í nýrri markaðsgreiningu Markaðsstofu Suðurlands að brýn þörf sé á því að efla ferðaþjónustuna, m.a. með fjölgun upplýstra og þjálfaðra starfsmanna sem búa yfir haldgóðri fagþekkingu. Ætla má að námið í svæðisleiðsögn sé liður í að svara þeirri þörf. Verkefnið er styrkt af SASS.

Í ljósi mikils áhuga fyrir námi af þessu tagi hefur Fræðslunetið í hyggju að bjóða uppá frekara nám fyrir ferðaþjónustuna og hefur þegar skipulagt nokkur hagnýt námskeið í því skyni.

Sólveig R. Kristinsdóttir, verkefnisstjóri og ráðgjafi hjá Fræðslunetinu – símenntun á Suðurlandi.

 

Nýjar fréttir