3.9 C
Selfoss

Eldri borgarar á Selfossi vilja notendavænni þjónustu hjá Heilbrigðisstofnuninni

Vinsælast

Aðalfundur Félags eldri borgara Selfossi var haldinn 23. febrúar sl., að Grænumörk 5. Fundinn sóttu rúmlega 110 félagsmenn. Í skýrslu stjórnar kom fram að starfsemi félagsins á síðastliðnu ári var mjög fjölbreytt og þátttaka félagsmanna yfirleitt mjög góð.

Félagsstarfið hefur fyrir löngu sprengt af sér núverandi húsnæði en aðstaðan mun batna verulega með nýrri byggingu sem hafin er austan við Grænumörk 5.

Rekstur félagsins gekk þokkalega á árinu og skilaði 126 þús kr. afgangi. Félagsmönnum fjölgaði á árinu og voru 565 í árslok.

Sigríður J. Guðmundsdóttir var endurkjörin formaður til næstu tveggja ára. Heiðdís Gunnarsdóttir, sem verið hefur í stjórn félagsins í sex ár hefur lokið stjórnarsetu sinni og Óli Þ. Guðbjartsson, sem verið hefur í varastjórn í fjögur ár, gaf ekki kost á endurkjöri. Stjórn félagsins skipa nú: Sigríður J. Guðmundsdóttir, formaður, Guðmundur Guðmundsson, gjaldkeri, Anna Þóra Einarsdóttir, Jósefína Friðriksdóttir og Gunnþór Gíslason. Nýkjörnir varastjórnarmenn eru: Guðfinna Ólafsdóttir og Stefán A. Magnússon.

Nánari upplýsingar um félagsstarfið eru á vefsíðu félagsins febsel.123.is.

Fundurinn samþykkti m.a. tvær ályktanir:

Tilmæli til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands
Aðalfundur Félags eldri borgara Selfossi, haldinn 23. febrúar 2017, beinir þeim eindregnu tilmælum til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands að stofnunin leggi áherslu á notendavænni þjónustu en verið hefur um langt skeið. Til dæmis með því að notendur þurfi ekki að marghringja til þess eins að fá sig skráða á biðlista til hinna ýmsu sérfræðinga sem taka að sér þjónustu á vegum stofnunarinnar.

Ályktun um hjúkrunarheimili
Aðalfundur Félags eldri borgara Selfossi, haldinn 23. febrúar 2017, vekur athygli á því að lokun hjúkrunarheimilanna á Blesastöðum, sl. haust, og Kumbaravogi, nú í lok febrúar, fækkar hjúkrunarrýmum í Árnessýslu um 41 og eykur verulega þann mikla skort sem er á hjúkrunarrýmum í sýslunni. Fundurinn skorar því á heilbrigðisráðherra og ríkisstjórn að fjölga hjúkrunarrýmum úr 50 í 100 í nýju hjúkrunarheimili sem samið hefur verið um að reisa á Selfossi og áætlað að taka í notkun á fyrri hluta ársins 2019. Fundurinn hvetur jafnframt til þess að byggingu hjúkrunarheimilisins verði hraðað svo sem kostur er.

Nýjar fréttir