-3.1 C
Selfoss
Home Fréttir Pistlar Hvað með aðstandandendur fólks með geðraskanir?

Hvað með aðstandandendur fólks með geðraskanir?

0
Hvað með aðstandandendur fólks með geðraskanir?

Aðstandendur sinna hlutverki sem oft á tíðum er ofar getu nokkurs manns, að sinna einstaklingi með geðraskanir sem er ef til vill í sjálfsvígshættu eða með ranghugmyndir eða gríðarlegan kvíða og fá litla sem enga hjálp frá fagfólki er gríðarlegt álag fyrir aðstandendur og engin vaktaskipti eða grið gefin frá þessu hlutverki. Hlutverk sem enginn velur sér en samt sem áður eiga margir aðstandendur ekkert val um hvort að þeir taki það að sér eða ekki, því þeir eru oftar en ekki eina haldreipi ástvinarins sem þjáist af sjúkdómi sem er svo erfitt að gera sér í hugarlund.

Á höfuðborgarsvæðinu eru nokkur úrræði sem aðstandendur geta leita til en aðstandendur úti á landi þurfa ef til vill að spara krafta sína og þá verður ferð til Reykjavíkur oft eitthvað sem mætir afgangi sérstaklega þar sem það snertir ekki umönnun eða meðferð hins veika að einhverju leyti. Aðstandendur gleyma því oft að þeir gera ástvinum sínum lítið gagn þegar þeir hafa klárað orkuna sína og brotna niður. Aðstandendur þurfa að fá að ræða upplifun sína og reynslu við einhvern sem skilur, jafnt sem einstaklingur með geðröskun hefur þörf fyrir að ræða við jafningja sína. Um þetta gildir það sama, það er gott að geta talað við einhvern sem skilur, einhvern sem hefur upplifað svipaðar tilfinningar og hefur ef til vill einhver ráð til að gefa.

Töluvert hefur verið haft samband við Batasetur Suðurlands vegna skorts á úrræðum fyrir aðstandendur og eftir að hafa fengið góðfúslegt leyfi hjá stjórnendum Hvítasunnusafnaðarins mun Batasetur Suðurlands fara af stað með aðstandendafundi annan hvern miðvikudag kl. 20:00–21:30 í Kaffi Líf í húsnæði Hvítasunnusafnaðarins á Selfossi (við hliðina á Nettó).

Fyrsti aðstandendafundurinn verður haldinn þann 1. mars nk. kl. 20:00. Frekari upplýsingar er hægt að fá hjá forstöðukonu Bataseturs, Jónu Heiðdísi í síma 893 0292. Einnig má sjá lýsingu á því hvernig aðstandendafundir fara fram á síðu Bataseturs, www.batasetrid.com og www.facebook.is/Batasetur/.

Verið hjartanlega velkomin.
Jóna Heiðdís Guðmundsdóttir, forstöðukona Bataseturs Suðurlands og iðjuþjálfi.