-1.1 C
Selfoss

Umræðudagskrá í Listasafni Árnesinga á laugardag

Vinsælast

„Saga nautnar er um leið saga neyslusamfélagsins sem keyrt er áfram á uppfærðri útgáfu af vellíðunarlögmálinu. Allt um kring er ofhlæði áreitis, hafsjór upplýsinga og mynda sem talar til okkar og tælir okkur, á götum úti og inni á heimilum“ segir í texta Markúsar Þórs Andréssonar í sýningarskrá sýningarinnar Nautn / Conspiracy of Pleasure í Listasafni Árnesinga í Hveragerði. Með verkunum á sýningunni er efnt til orðræðu um margslungna útfærslu á hugtakinu nautn og nú er einnig blásið til stutts málþings um efnið laugardaginn 25. febrúar kl. 14:00.

Hvernig birtist nautn í listsköpun? Hvaða hvötum er beitt til þess að ná til fólks? Hvaða erindi á samtímalist í söfn og hvaða erindi eiga söfn við samtímann — má sýna hvað sem er? Hvaða munur er á opinberu rými og einkarými?  Fjórir frummælendur flytja stutt inngangsorð þar sem þessar spurningar eru til umfjöllunar en síðan er einnig þátttöku gesta vænst.

Frummælendurnir eru Auður Ava Ólafsdóttir listfræðingur og rithöfundur, Ágústa Ragnarsdóttir myndlistarkennari í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi og grafískur hönnuður, Markús Þór Andrésson höfundur texta í sýningarsrkánni en einnig deildarstjóri sýningardeildar Listasafns Reykjavíkur  og Salvör Nordal forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands.

Höfundur verkanna eru listamennirnir Anna Hallin, Birgir Sigurðsson, Eygló Harðardóttir, Guðný Kristmannsdóttir, Helgi Hjaltalín Eyjólfsson og Jóhann Ludwig Torfason / Pabbakné.
Umræðum stjórnar Inga Jónsdóttir safnstjóri Listasafns Árnesinga og annar tveggja sýningarstjóra Nautn / Conspiracy of Pleasure en hinn er Hlynur Hallsson safnstjóri Listasafnsins á Akureyri.

Að loknum umræðum um kl. 15:00 munu Guðný og Birgir fara með gestum að verkum sínum, segja frá þeim og svara spurningum. Aðgangur að safninu er ókeypis og allir velkomnir, líka á málþingið sem og spjallið við listamennina.

Nýjar fréttir