7.8 C
Selfoss

Nýtt byggingarsvæði á Björkulandi á Selfossi

Vinsælast

Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar, segir í viðtali í Dagskránni að á næstunni verði leitað tilboða í gerð deiliskipulags á svokölluðu Björkustykki og hluta af Björkulandi sem sveitarfélagið keypti fyrir þó nokkuð mörgum árum sem framtíðarbyggingaland. Það er sunnan við Suðurhóla og liggur með Eyrarbakkaveginum. Þarna er samkvæmt aðalskipulagi gert ráð fyrir íbúðabyggð með skóla og leikskóla.

„Meðfram Eyraveginum er gert ráð fyrir blandaðri byggð þar sem er þjónusta líka. Þetta er mjög spennandi. Það er langt síðan sveitarfélagið hefur sjálft verið í því að deiliskipuleggja nýtt hverfi. Síðasta hverfið sem sveitarfélagið deiliskipulagði voru Suðurhólarnir, en það eru orðin nokkuð mörg ár síðan. Það hefur þótt vel heppnað hverfi og er vinsælt til búsetu. Þannig að við munum eflaust horfa eitthvað til þess að nýja hverfið verði með svipuðum takti með blandaðri byggð einbýlis-, par- og raðhúsa og einhverjum fjölbýlishúsum.“

78–80 íbúðir í Haglandinu
„Síðan er verið að vinna í því að breyta skipulagi á landi sem sveitarfélagið eignaðist og er úr Hagalandinu. Þar kemur væntanlega tillaga að nýju deiliskipulagi fyrir skipulags- og bygginganefnd á næsta fundi. Hún fer þá í framhaldinu í auglýsingu og kynningu. Við erum síðan tilbúin í að fara í gatnahönnun þar og mögulega verður hægt að úthluta lóðum þar jafnvel á næsta ári. Á því svæði verða um 70–80 íbúðir, í einbýlis, par- og raðhúsum,“ segir Ásta.

18 holu golfvöllur í deiliskipulagi
„Ef maður horfir síðan yfir stærra svæði þá er líka verið að vinna að deiliskipulagi að golfvellinum við Svarfhólsvöll. Það styttist auðvitað í að nýja brúin komi og vegurinn taki þar hluta af brautunum. Þá þarf að endurhanna golfvöllinn og færa til út af því. Það er því verið að deiliskipuleggja þar 18 holu golfvöll. Ég veit að þeir golfmenn hafa hug á því að geta farið að færa til mold í sumar og byggja upp nýjar brautir þannig að þetta verði nú allt klárt þegar nýi vegurinn kemur.“

Verndarsvæði í byggð á Eyrarbakka
„Svo má minnast á eitt verkefni sem við fengum styrk hjá Minjastofnun fyrir. Það verkefni heitir Verndarsvæði í byggð. Þar ætlum við að taka Eyrarbakka fyrir eða hluta af þorpinu. Það er svæði sem er skilgreint innan hverfisverndar í aðalskipulagi. Þar verður farið í fornleifaskráningu og húsakönnun og unnin tillaga að skilmálum fyrir umhverfi og byggð með það í huga að vernda gömlu byggðina sem þar er. Það er mjög spennandi verkefni og við munum halda íbúafund um það á Eyrarbakka innan tíðar til að kynna það og gefa áhugasömum kost á að taka þátt.“

Nýjar fréttir