-8.3 C
Selfoss
Home Fréttir Pistlar Betur má ef duga skal

Betur má ef duga skal

0
Betur má ef duga skal
Henný Hrund Jóhannsdóttir, 4. árs hjúkrunarnemi við Háskólann á Akureyri og nemi við Sjúkraflutningaskólann.

Fjöldi ferðamanna á Íslandi hefur meira en tvöfaldast frá árinu 2010, en síðan þá hefur árleg aukning verið um 20% til dagsins í dag. Umferðarþungi um þjóðvegi Suðurlands hefur aukist gríðarlega síðustu árin í takt við fjölgun ferðamanna og má þar nefna Reynisfjall í Mýrdal sem dæmi.

Samkvæmt tölum frá Vegagerðinni fór sami fjöldi bíla yfir Reynisfjall í janúar 2017 og í júní 2012. Dimmasti vetrarmánuður ársins er nú orðinn sambærilegur hásumarmánuðum fyrri ára. Mönnun heilsugæslustöðvarinnar og fjöldi sjúkrabíla í Vík í Mýrdal er alltaf sú sama, óháð árstíðum og ferðamannafjölda. Aukinn fjöldi ferðamanna hefur því ekki haldist í hendur við aukna fjárfestingu í innviðum landsins og margir þættir eru komnir að þolmörkum. Þar eru heilsugæslan og sjúkraflutningar á Suðurlandi og starfsemi þeirra engin undantekning.

Um 500 einstaklingar eru búsettir í Mýrdalshreppi, bæði í dreifbýli og þéttbýli. Í Vík í Mýrdal er heilsugæslan mönnuð með einum hjúkrunarfræðingi og einum lækni, ásamt móttökuritara. Einn sjúkrabíll er staðsettur í Vík, á vegum Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og Rauða Kross Íslands, þar sem tveir sjúkraflutningamenn eru á bakvakt hverju sinni. Heilsugæslan og sjúkraflutningar í Vík hafa sinnt sínu fjölbreytta starfi með sóma og reynst héraðsbúum og ferðamönnum vel, þrátt fyrir mikið álag. Þessir einstaklingar bera héraðið og tugþúsundir ferðamanna á örmum sér.

Heilsugæslan er hornsteinn landsbyggðarsamfélagsins. Fyrsti viðkomustaður sveitunga, og oft á tíðum ferðamanna. Ferðaþjónustan er einnig ein af grunnstoðum samfélagsins og hefur starfsgreinin notið mikillar velgengni síðustu árin. Ferðaþjónustan og heilsugæslan þurfa að haldast í hendur, aukinn fjöldi ferðamanna á Suðurlandi kallar á aukna mönnun á heilsugæslunum. Er ásættanlegt að tveir heilbrigðisstarfsmenn þjónusti tugþúsundir manna? Er virkilega ásættanlegt að einn sjúkrabíll þjónusti sama fjölda?

Ég fagna umræðu Alþingis á dögunum um málefni heilsugæslunnar, og skora á stjórnvöld að bregðast skjótt við þessum vanda áður en of seint er í rassinn gripið. Ómögulegt er að breikka herðar heilbrigðisstarfsmanna frekar. Auka þarf fjármagn, bæta þarf mönnun og fjölga þarf sjúkrabílum á Suðurlandi. Betur má ef duga skal.