-1.6 C
Selfoss
Home Fréttir Veggjald algjörlega óásættanlegt

Veggjald algjörlega óásættanlegt

0
Veggjald algjörlega óásættanlegt
Morgunsól í hveragerði. Ljósmynd: Hveragerði.

Vegna umræðu undanfarið um fjármögnun nauðsynlegra framkvæmda á stofnvegum í nágrenni höfuðborgarsvæðisins samþykkti bæjarráð Hveragerðis eftirfarandi bókun á fundi sínum þann 16. febrúar sl.:

Bæjarráð Hveragerðisbæjar mótmælir hugmyndum um veggjald sem ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála hefur viðrað sem forsendu fyrir framkvæmdum við bættan Suðurlandsveg.

Í greinargerð með samþykktinni segir:
Samkvæmt vegaáætlun eiga framkvæmdir við breikkun Suðurlandsvegar milli Hveragerðis og Selfoss að hefjast árið 2018. Hönnun vegkaflans hefur verið boðin út og er þegar hafin. Verður þessi áfangi bylting hvað varðar umferðaröryggi á þessari fjölförnu og hættulegu leið.
Umræða nú um mögulegt veggjald sem lagt yrði á vegfarendur sem aka um stofnbrautir út af höfuðborgarsvæðinu kemur á óvart enda var slík umræða tekin árið 2010/2011 og hlaut hún þá lítinn hljómgrunn.
Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar barðist þá gegn slíkum áformum enda talið að hér væri skýrt dæmi um landsbyggðartoll að ræða. Fátt hefur gerst sem breytir fyrri skoðun bæjarstjórnar og því mótmælir bæjarráð nú þeim hugmyndum um veggjald sem ráðherra hefur viðrað sem forsendu fyrir framkvæmdum við bættan Suðurlandsveg og aðrar stofnbrautir út úr Reykjavík.
Rétt er að minna á að nú þegar greiða allir bifreiðaeigendur skatta til ríkisins í formi bifreiða- og eldsneytisgjalda. Með upptöku veggjalda er klárlega verið að tvískatta notendur umræddra vega á meðan aðrir landsmenn greiða ekki sérstaklega fyrir úrbætur á vegakerfinu. Slíkt er algjörlega óásættanlegt og brýtur gegn jafnræði íbúa þessa lands.
Verði veggjald að veruleika er vegið að afkomu fjölda einstaklinga en auk þess snerta áformin með beinum hætti fjölda fyrirtækja sem daglega sjá til þess að nauðsynjar berist inná höfuðborgarsvæðið og veita þar mikilvæga þjónustu. Að reisa múra með þessum hætti umhverfis stærstu byggðarlög landsins er andstætt því samfélagi sem við viljum byggja upp þar sem ríkja ættu hindrunarlausar og góðar samgöngur milli byggðarlaga.