3.9 C
Selfoss

Sótt um danskan styrk til að finna gamlar fallbyssur

Vinsælast

Síðastliðið sumar gerði Guðbrandur Jónsson mælingar austur af Hafnarskeiðinu í nágrenni við Þorlákshöfn í því skini að finna gamlar fallbyssur af herskipinu Gautaborg sem fórst þar haustið 1718. Skipið fylgdi á þeim tíma dönskum kaupskipum til Íslands. Við mælingarnar naut Guðbrandur aðstoðar og fékk afnot af hafnsögubátnum í Þorlákshöfn. Var svæðið austast á Hafnarskeiðinu mælt en það er jafnframt hættulegasta mælingasvæðið. Ekkert fannst við grunnsvæðið og skerin við ósinn.

Í nýlegu bréfi til bæjarstjórnar Ölfuss segir Guðbrandur að sú staða hafi komið upp að fallbyssurnar 50 og annað sem fór í sjóinn tilheyri ennþá Konungsríkinu Danmörk og eða ríkisstjórn Danmerkur samkvæmt upplýsingum frá IMO stofnun Sameinuðu Þjóðanna, þar sem skipið er herskip.

Í þessu sambandi hefur Guðbrandur leitað eftir styrk frá Danmörku, fyrir milligöngu sendiráðs Dana á Íslandi. Sendi hann inn erindi til Dronning Margrethe II´s Arkæologiske fond, með fyrirspurn um það hvort sjóðurinn gæti styrkt mælingu og leit að munum á hafsbotni.

Svar barst fyrir jólin, þar sem fram kom að ekki væri útilokað að styrkur fengist, ef eftir því væri leitað.

Guðbrandur sendi Sveitarféaginu Ölfusi og Byggðasafni Ölfuss erindi þar sem hann innti þau eftir því hvort þau vildu vera aðilar að umsókninni. Í erindinu segir hann það skoðun sína að það væri farsælast ef munir finnast, að varðveita þá á safninu í nafni eigenda, danska ríkisins eða Konungsríkisins Danmörk, á Byggðasafni Ölfus.

Markaðs- og menningarnefnd Ölfuss tók erindið fyrir á fundi síðastliðinn föstudag. Nefndin samþykkti að taka þátt í styrkumsókninni að því gefnu að það feli ekki í sér kostnað fyrir sveitarfélagið.

Nýjar fréttir