-4.8 C
Selfoss

Listáskorun til barna, unglinga og fullorðinna

Vinsælast

LISTRÝMI er yfirheiti fjölbreyttra myndlistarnámskeiða sem nú eru haldin í Listasafi Árnesinga í umsjón Guðrúnar Tryggvadóttur myndlistarmanns. Teikninámskeið með Guðrúnu stendur yfir og nýlokið er helgarnámskeiði í akrílmálun og blandaðri tækni með Jakobi Veigar Sigurðssyni. „Þátttakendur beggja námskeiða hafa lýst ánægju sinni með þau og bíða spennt eftir framhaldsnámskeiðum. Framundan eru áhugaverð námskeið en þau eru háð þátttöku,“ segja þær Guðrún og Inga Jónsdóttir safnstjóri.

„Með því að efna til þessa námskeiðahalds er safnið að koma til móts við óskir og þarfir samfélagsins hér á ýmsan hátt. Allir leiðbeinendurnir og kennarar eru starfandi listamenn búsettir í Árnessýslu og hér fá þeir tækifæri til þess að skapa sér störf í heimabyggð og taka þeirri áskorun að miðla til annarra kunnáttu sinni og reynslu. Með föstu framboði á myndlistarnámskeiðum á svæðinu gefst þátttakendum, hvort heldur byrjendum eða lengra komnum, börnum sem fullorðnum tækifæri til þess að þroska og þróa sína færni,“ segir Inga sem vonast til þess að þetta samstarf eigi eftir að eflast.

„Að skapa myndlist er þjálfun sem allir geta þróað með sér og samtímis fæst aukin ánægja og skilningur á myndlist almennt,“ heldur Guðrún áfram en Guðrún hefur langa reynslu af námskeiðahaldi í myndlist. „Að teikna, mála og móta er sú grunnkunnátta sem liggur að baki allri skapandi hugsun og framkvæmd í samfélaginu og eykur lífsgleði ungra jafnt sem aldinna. Á námskeiðunum lærir fólk ekki aðeins af okkur leiðbeinendunum heldur einnig hvert af öðru og tengsl myndast sem er dýrmætt í dreifbýli eins og við búum við hér á Suðurlandi. Við erum líka opin fyrir óskum og ábendingum frá íbúum hér,“ segir Guðrún.
Framundan eru nokkur helgarnámskeið. Á ljósmyndanámskeiði með Pétri Thomsen er tekin fyrir bæði gömul tækni eins og Pinhole en einnig möguleikar stafrænnar ljósmyndunar, jafnvel ljósmyndun með símum. Einnig eru á dagskrá helgarnámskeið í vatnslitamálun með Guðrúnu, olíumálun með Mýrmann og þrívíð mótun þar sem unnið er með leir og gifs með Dagnýju Guðmundsdóttur.

Til að sinna einnig börnum og unglingum eru í boði spennandi námskeið fyrir 8–10 ára og 11–12 ára þar sem unnið er með margvísleg efni á skapandi hátt og námskeið í alvöru myndasögugerð fyrir unglinga.

Nánari upplýsingar má finna á á vefsíðu Listasafns Árnesinga www.listasafnarnesinga.is, eða hringja í síma safnsins 483 1727 eða umsjónarmanns LISTRÝMIS, Guðrúnu 863 5490. Verkefnið nýtur stuðnings Uppbyggingarsjóðs Suðurlands.

Nýjar fréttir