3.9 C
Selfoss

Fjölbreyttar æfingar hjá Brunavörnum Árnessýslu í febrúar

Vinsælast

Fjölbreyttar æfingar hafa staðið yfir hjá Brunavörnum Árnessýslu í febrúarmánuði. Varðstjórar á hverri stöð fengu frjálsar hendur til að skipuleggja æfingu á því sem þeir töldu helst þurfa að hnykkja á hjá sér.

Áherslur varðstjóra á Selfossi voru aðkomuæfing og skoðunarferð í stóra og flókna byggingu, hús SS á Selfossi. Byrjað var á að skoða myndir og teikningar af húsinu og gera áætlun um aðkomu að húsinu ef til elds kæmi. Að því loknu fór hópurinn í skoðunarferð um húsið til að átta sig frekar á umfangi og helstu hættum. Eftir skoðunarferðina fór hópurinn yfir aðkomuáætlunina og endurskoðaði hana með tilliti til nýrrar vitneskju. Menn voru sammála því að aðkomuæfing og skoðunarferð sem þessi væri mjög mikilvæg í stórum og flóknum húsum sem þessu.

Árnesstöðin með æfingu við Búrfellsvirkjun.
Árnesstöðin með æfingu við Búrfellsvirkjun.

Árnesstöðin reið á vaðið og hélt æfingu við Búrfellsvirkjun (Búrfell 2) í samvinnu við slökkviteymi ÍAV. Kveikt var í vörubrettum við skemmusvæði Búrfells og var hlutverk slökkviteymisins að hefja slökkvistarf áður en slökkviliðsmenn frá Árnesi komu á staðinn. Slökkviteymið notaðist þá við slökkvikerru sem staðsett er við virkjunina auk þess sem þeir æfðu fjarskiptasamskipti við slökkviliðsmennina. Þegar slökkviliðið mætti á vettvang æfðu slökkviliðsmenn reykköfun og leit að manneskju inni í skemmu á meðan slökkviteymið sá um vatnsöflun. Að lokinni æfingu fengu BÁ menn skoðunarferð um svæðið.

Klippuæfing á gámasvæði Hveragerðisbæjar.
Klippuæfing á gámasvæði Hveragerðisbæjar.

Áhersla varðstjóra í Hveragerði var á björgun fastklemmdra úr ökutækjum og því var klippuæfing haldin þar á dögunum. Æfingin fór fram á gámasvæði Hveragerðisbæjar þar sem stillt var upp vettvangi umferðarslyss og æfð klippivinna á bílum. Afar nauðsynlegt er að æfa þessi handtök reglulega og gekk þessi æfing mjög vel.

Myndir: Brunavarnir Árnessýslu.

Nýjar fréttir