-6.8 C
Selfoss

Hláturinn lengir lífið

Vinsælast

„Ég myndi gera allt fyrir frægðina, nema koma nakinn fram,“ söng Egill Ólafsson hér um árið en slíkri feimni er ekki fyrir að fara í Hveragerði þessa dagana. Undirritaður brá sér af bæ um síðastliðna helgi og skellti sér í leikhús að sjá verkið Naktir í náttúrunni í leikstjórn Jóns Gunnars Þórðarsonar sem hið 70 ára Leikfélag Hvergerðis sýnir um þessar mundir.
Hér er á ferðinni ærslafenginn farsi sem byggður er á kvikmyndinni Með fullri reisn (The Full Monty) sem sýnd var í kvikmyndhúsum hér á landi árið 1997. Fjölmargar persónur koma við sögu en allt snýst þetta samt um sex garðyrkjumenn sem flestir eru komnir af léttasta skeiði og eiga það sameiginlegt að hafa misst vinnuna. Nú eru góð ráð dýr en neyðin kennir naktri konu að spinna. Þeir bregða á það ráð að sýna nektardans á konukvöldi í sveitinni og vinna sér þannig inn aukapening.

Söguþráðinn kannast sjálfsagt flesir við enda var kvikmyndin, sem leikritið er byggt á, geysivinsæl á sínum tíma en hér er búið að staðfæra verkið að Hveragerði nútímans. Inn í sýninguna fléttast t.d. Eden, heilsuhælið, tívolíið, Kjörís og auðvitað garðyrkjan. Handritið er mjög ferskt því nokkur atriði úr síðustu vendingum í íslenskri pólitík koma við sögu. Meira að segja kom einn sýningargestanna til tals á sviðinu þetta kvöld þannig að handritið virðist ekki vera vera niður njörvað, sem gerir þetta lifandi og skemmtilegt.

Hjörtur Benediktsson, formaður Leikfélags Hveragerðis segir viðtökurnar hafa verið góðar, sem er engin furða því hér er á ferðinni sprenghlægilegt stykki á afmælisárinu sem ég mæli með og hvet alla til að sjá. Hláturinn lengir lífið.

Kjartan Már Hjálmarsson, starfsmaður Dagskrárinnar.

Næstu sýningar á Naktir í náttúrunni eru 10. og 11. febrúar nk. og svo helgina 17. og 18. febrúar.

Nýjar fréttir