Síðastliðinn sunnudag var haldin samkoma í Tryggvaskála þar sem því var m.a. fagnað að stóri salurinn er nú kominn í nánast sama horf og hann var árið 1947. Þar afhentu börn og afkomendur Brynjólfs Gíslasonar og Kristínar Árnadóttur í Tryggvaskála formlega stór málverk sem prýddu salinn frá 1947 allt þar til Selfossbær keypti húsið 1974.
Bryndís Brynjólfsdóttir rakti í stuttu máli sögu framkvæmda við endurgerð hússins frá því að Skálafélagið var stofnað. Þakkaði hún þeim aðilum sem komu þar við sögu. Einnig þakkaði hún píanógjöf Rúnars heitins Mogensen. Þá sagði Gísli Kristjánsson frá framkvæmdum við endurgerð hússins. Sigurjón Erlingsson afhenti gamlan hermannahjálm sem hann sagðist hafa verið beðinn fyrir og Brynjólfur Tryggvi Árnason afhenti minni útgáfu að flóðamyndinni svokölluðu.
Bryndís var spurð út í tilefni samkomunnar i Tryggvaskála.
„Tilefnið er að um þessar mundir er Skálafélagið að fá yfirráð yfir öllum þeim málverkum sem að skreyttu veggi veitingasalarins um 1947. Þegar að Tryggvaskáli var seldur 1974 vildi Selfossbær ekki fjárfesta í þessum málverkum þannig að fjölskyldumeðlimir Brynjólfs og Kristínar eignuðust málverkin eftir þeirra dag.
Nú náðum við systkini og afkomendur þeirra samkomulagi um að við myndum öll koma saman með þessi málverk og gera salinn eins og faðir minn og móðir höfðu skreytt hann 1947. Nú er salurinn nánast eins og hann var 1947, með málverkunum og upprunalegri málaðri fjárrekstursljósmynd sem er á 100 króna seðlinum“, segir Bryndís.
En hver skyldi tilurð málverkanna vera?
„Það var um 1947 að faðir minn Brynjólfur réði Matthías Sigfússon til að mála myndirnar. Heklumyndin er svolítið sérstök, en það var þannig að Hekla fór að gjósa 1947 og þeir hentust austur. Matthías gerði skyssu af gosinu og eftir um tuttugu mínútur var það sem blasti við farið og gosið breytt. Þetta var m.a. eitt mótivið. Svo voru hinar myndirnar þ.e. úr Þórsmörk og af Eiríksjökli og Baulutindi. Svo er líka ein af Nikulásargjá á Þingvöllum. Síðan málaði hann flóðamyndina 1948 og henni var bætt við. Salurinn var skreyttur svona með öllum þessum myndum 1947–1948.
Hvaða gildi finnst Bryndísi salurinn hafa í dag þ.e. að hafa hann svona?
„Við getum alveg spurt okkur hvaða gildi hefur það að gera upp gömul hús. Hvaða gildi hefur það fyrir okkur að elsta hús Selfossbæjar er orðið nýuppgert og í fullri notkun? Og farið að sinna því starfi sem það sinnti fljótlega eftir byggingu þess? Maður getur líka spurt sig hefur það ekki gildi líka eins og að gera upp gömlu húsin að geta skreytt salinn eins og hann var skreyttur 1947 fyrir nákvæmlega 70 árum síðan?
Strax eftir að brúin var komin þurfti fólk að fá inni, fá gistingu eftir langferðir. Síðan komu kröfur um veitingasölu. Í húsinu var lengst af og alltaf veitingasala. Á þessum árum í kringum 1947 vildi faðir minn gera salinn fallegan og aðlaðandi fyrir gesti og gangandi til að snæða í.
Svo er ekki verra að í dag er veitingastarfsemi í salnum eins og lengst af var. Auðvitað verður húsið að vinna fyrir sér en það var kannski alltaf markmiðið að hafa hér veitingarekstur eins og var. Þetta er voðalega fallegt hús og vel látið af veitingum sem hér eru fram bornar. Við erum mjög ánægð með hvernig hefur tekist til með endurgerð hússins. Það var mikill metnaður lagður í það. Okkur finnst þetta alveg vera punkturinn yfir i-ið að geta skreytt stóra salinn eins og hann var árið 1947.“