-10.3 C
Selfoss
Home Fréttir Pistlar Að ýmsu að huga við andlát einstaklings

Að ýmsu að huga við andlát einstaklings

0
Að ýmsu að huga við andlát einstaklings
Jónína Guðmundsdóttir, hdl. Pacta.

Það er eitt sem hægt er að ganga að vísu í lífinu en það er að öll deyjum við einhvern tímann. Margir hafa staðið frammi fyrir því að ættingi deyr og þurfa að eiga samskipti við sýslumann vegna dánarbúsins og finnst mörgum það flókið ferli.

Um leið og andlát er tilkynnt til sýslumanns hefur sýslumaður forræði yfir dánarbúinu, þar með talið öllum eigum þess. Erfingjar hins látna geta fengið leyfi frá sýslumanni til þess að taka fjármuni út af bankareikningum búsins fyrir útfararkostnaði, en annars er ekki hægt að ráðstafa eignum nema með samþykki sýslumanns.

Innan þriggja mánaða frá andláti verða erfingjar hins látna að taka ákvörðun um hvaða leið þeir kjósa að fara með dánarbúið. Erfingjar geta á þessum tíma fengið leyfi frá sýslumanni til að kanna eignastöðu dánarbúsins og er mikilvægt að skoða hana vel áður en framhaldið er ákveðið.

Þrír möguleikar eru í stöðunni: lýsa yfir eignaleysi, fara í einkaskipti eða opinber skipti.
Þegar dánarbúið á einungis skuldir, en engar eignir, eða þær óverulegar, er hægt að ljúka skiptum með því að tilkynnandi lýsir yfir eignaleysi dánarbúsins. Þannig bera erfingjar ekki ábyrgð á skuldum dánarbúsins.

Ef eignir búsins eru umfram skuldir og erfingjar eru um það sammála, geta þeir óskað eftir því við sýslumann að fá leyfi til einkaskipta. Þannig skipta þeir eignum búsins sín á milli í réttu arfshlutfalli og bera í leiðinni ábyrgð á öllum skuldum búsins, þar með talið ábyrgðarskuldbindingum sem hinn látni hefur tekist á hendur.

Þegar erfingjar geta ekki komið sér saman um einkaskipti eða skuldir eru umfram eignir í dánarbúinu og erfingjar kjósa að taka ekki ábyrgð á þeim er hægt að lýsa því yfir við sýslumann að ekki verið farið fram á einkaskipti. Þá óskar sýslumaður eftir því við héraðsdóm að fram fari opinber skipti á dánarbúinu. Í þeim tilfellum er skipaður skiptastjóri yfir dánarbúinu sem í raun gerir upp búið með sambærilegum hætti og um væri að ræða gjaldþrotaskipti, þ.e. kemur eignum í verð og úthlutar til þeirra sem lýsa kröfu í búið.
Mikilvægt er að vera vel meðvitaður um réttarstöðu sína og tryggja hana eins vel og mögulegt er þegar kemur að dánarbússkiptum enda hafa erfingjar oft lent í því að þurfa að greiða ábyrgðarskuldbindingar nokkrum árum eftir að skipum lauk.

Jónína Guðmundsdóttir hdl., Pacta.