-6.7 C
Selfoss

Skráning á flóttafólki sem flúði Heimaeyjargosið 1973

Vinsælast

Þegar gos hófst á Heimaey 1973 var fljótlega farið í það að koma íbúum og gestum frá Eyjunni. Flestir fóru með bátum, einhverjir fóru með flugi og svo voru aðrir sem fóru ekki strax.

Við komuna til Reykjavíkur um morguninn var fólkið skráð og hvert það fór, alls um 4216 manns. Aldrei var skráð hvaða bátar sigldu með flóttafólkið né hverjir fóru um borð í hvaða bát. Heyrst hefur að Vestmannaeyjaradíó hafi skráð bátana og flestir gefið upp fjölda farþega en ekki hefur tekist að finna þá skráningu.

Veturinn 2010 hófst skráning í Sagnheimum á flóttafólkinu sem flúði Heimeyjargosið 1973. Nú sex árum síðar er búið að skrá megnið af þessum einstaklingum eða 4.912 manns, sem skiptast þannig:
285 manns voru skráðir í flug, 4.448 fóru sjóleiðina, þar af 114 sem vita ekki nafn báts. Ennfremur er búið að skrá 172 einstaklinga sem fóru ekki upp á land alveg strax og svo loks 7 sem staðfest er að hafa verið í Eyjum en ekki vitað hvort og þá hvernig þeir fóru. Úr íbúaskránni á þó enn eftir að skrá  um 180 einstaklinga, 30 eru á lífi en hluti þeirra býr erlendis og náðst ekki í þá og svo eru 149 látnir. Gætu ættingjar þá haft upplýsingar um hvort viðkomandi hafi verið í Eyjum og hvort farið var um nóttina.

Til að skrá ofangreinda einstaklinga var notast við íbúaskrá frá 1972. Haft var samband við þá einstaklinga sem náðist í, fyrst með auglýsingum í Eyjum og síðan á Facebook. Einnig var hringt í nokkra einstaklinga. Nú þegar búið að skrá allflesta úr íbúaskránni er komið að því að fá fólk til að prófarkalesa, þ.e. fá fólk til að skoða hvort það sé ekki örugglega komið í bátinn sem það fór með og svo vinir sem þeir muna eftir að hafi verið í sama bát.
Enn vantar örugglega einhverja sem voru komnir á vertíð. Ég veit t.d. um Frakka og Íra sem ég hef ekki fundið nöfn á en var rætt við í blöðunum við komuna upp á land. Á þessum árum voru mikið af aðkomumönnum á vertíðum í Eyjum. Þó ber að geta að vertíðin var ekki almennilega komin í gang. Heyrst hefur um einstaklinga sem voru lagðir af stað til Eyja en voru ekki komnir alla leið. Stúlka var komin til Reykjavíkur frá Siglufirði og sjómaður var í Herjólfi á leið til Eyja og var að fara á vertíð á mb Leó VE (vantar nafn á þann einstakling). Sá réri þó ekki á Leó um veturinn, hefur sennilega fengið nóg eftir þessa nótt.

Ef einhverjir hafa upplýsingar um fólk sem var komið til Eyja væri gott að fá sendar upplýsingar  á 1973ibatana@gmail.com, nafn einstaklings, fæðingadag og ár, heimilisfang 1973, og hvernig viðkomandi fór frá Eyjum ef vitað er. Hægt er að skoða bátalistana á 1973ibatana.blogspot.com.

Fyrir hönd 1973 í bátana
Ingibergur Óskarsson

Nýjar fréttir