1.7 C
Selfoss

Foreldrafélag til fyrirmyndar

Vinsælast

Foreldrafélag leikskólans Undralands á Flúðum var tilnefnt til Menntaverðlauna Suðurlands 2016. Foreldrafélagið hefur til margra ára stutt dyggilega við starf leikskólans, keypt kennslugögn, borgað námskeiðsgjöld og staðið fyrir margskonar árlegum uppákomum.
Foreldrafélagið kom færandi hendi með ungbarnarólur handa okkur í vor en leikskólinn tekur börn í vistun frá eins árs aldri þannig að rólurnar eru mikið notaðar.

Sem dæmi um kennslugögn sem félagið hefur keypt handa okkur er „Lubbi finnur málbein“ en það er kennsluefni sem er ætlað til að efla hljóðkerfisvitund sem er mikilvæg í tengslum við læsi og lestur. Með samþættingu sjón-, heyrnar og hreyfi-/snertiskyns, þar sem táknrænar hreyfingar fyrir hvert málhljóð undirstrika eiginleika og sérkenni hljóðsins, eru þau gerð sýnileg og nánast áþreifanleg. Fjölþætt vistun málhljóðanna í minni auðveldar börnum að kalla þau fram, hratt og örugglega, sem þrívíddarmynd á breiðtjaldi hugans, m.a. þegar kemur að því að umskrá bókstafi í hljóð við upphaf lestarnáms. Hljóðasmiðja Lubba leiðir börnin áfram allt frá fyrsta aldursári, þegar þau hafa forsendur til að upplifa og prófa sig áfram með hljóðmyndun, og svo koll af kolli þar til sjálfvirkni í umskráningu er náð með öflugri brúarsmíð á milli málhljóða og bókstafa. Hér er lagður grunnur að lestrarnámi barna.

Foreldrafélagið gefur leikskólanum jólagjöf á hverju ári og erum við beðin um óskalista. Einnig fá börnin gjöf frá jólasveininum á jólaballinu og til gamans má geta þess að í ár fengum við nýtt jólatré að gjöf frá félaginu.

Jólagjöfin í ár er kassi með vináttuverkefni Barnaheilla en það er forvarnarverkefni gegn einelti fyrir leikskóla. Efnið heitir á frummálinu Fri for mobberi og er þýtt, staðfært, framleitt og gefið út í samstarfi við Red barnet – Save the Children og Mary Fonden í Danmörku. Fri for mobberi er einnig til fyrir yngstu bekki grunnskóla í Danmörku. Mikil ánægja er með verkefnið þar sem það er notað og rannsóknir í Danmörku leiða í ljós mjög góðan árangur af notkun þess.

Vinátta eða Fri for mobberi byggir á nýjustu rannsóknum á einelti og á ákveðinni hugmyndafræði og gildum sem skulu samofin öllu skólastarfinu auk raunhæfra verkefna fyrir nemendur, starfsfólk og foreldra. Leikskólar sem vilja nota efnið þurfa að fara á námskeið til að fá leyfi til að nota það. Með kassanum fylgir námskeið fyrir tvo starfsmenn leikskólans, einnig gjöf frá foreldrafélaginu.

Félagið sér um veitingar á vorhátíð, grillar fyrir börn og foreldra. Það styrkir okkur með því að borga rútuferðir fyrir okkur t.d. í Slakka á haustin og í fjöruferð á vorin. Á hverju ári er okkur boðið á leiksýningu sem foreldrafélagið sér um að panta og skipuleggja í samstarfi við okkur.

Öskudagsskemmtun er alfarið á vegum foreldrafélagsins, okkur er boðið upp á heimagert leikrit sem stjórn foreldrafélagsins semur og leikur. Þau kaupa innihaldið í kassana góðu sem slegið er úr og öll börn fá nammi í poka með sér heim í þeirra boði.

Farið er í vorferð og einnig stendur félagið fyrir dagsferð á svæðinu þar sem aðalatriðið er að hittast með börnunum og hafa skemmtilegt saman. Þessi ferð er á laugardegi og hefur verið vel sótt.

Við starfsfólk leikskólans erum afskaplega þakklát fyrir frábært foreldrafélag og eitt er víst að starf leikskólans væri ekki eins fjölbreytt, og raun ber vitni, ef félagsins nyti ekki við.
Með þessari tilnefningu viljum við hvetja foreldra og foreldrafélög til að taka Foreldrafélag leikskólans Undralands Flúðum sér til fyrirmyndar og vonandi verður það góða starf sem félagið stendur fyrir hvatning til annarra foreldrafélaga.

F.h. starfsfólks leikskólans Undralands Flúðum
Ingibjörg Bjarney Baldursdóttir leikskólastjóri.

Nýjar fréttir