-8 C
Selfoss

Óvinsæl ríkisstjórn

Vinsælast

Stuðningur landsmanna við nýja ríkisstjórn hefur nú verið mældur og er fjórðungur ánægður með hana. Þeir sem eru mjög ánægðir eru innan við 10%. Það sem vekur nokkra athygli þegar rýnt er í niðurstöðu Maskínu, sem gerði könnunina, er að ríkisstjórnin nýtur mikillar hylli hjá þeim sem háar tekjur hafa. Þar er hlutfall ánægðra um þriðjungur. Og enn hækkar hlutfall ánægðra þegar hópurinn sem telur sig hafa hærri tekjur en meðaltekjur heimila í landinu er veginn. Þar er ánægjan um 40%. Þetta er í sjálfu sér ekkert vandamál en segir okkur kannski eitthvað um þá skírskotun sem hin nýja stjórn hefur.

Annar kostur
Það var ekki augljóst eftir kosningar hvernig ríkisstjórn yrði mynduð, svokallað flækjustig var hátt, aðallega vegna þess að ýmsir höfðu verið með ótímabærar og stórkarlalegar yfirlýsingar fyrir kosningar og jafnvel eftir. Ég vil þó segja hér að ég tel, og er þess raunar fullviss, að aðrir möguleikar hafi verið uppi á borðum. Hægt hefði verið að mynda annars konar stjórn sem hefði haft mun breiðari pólitíska skírskotun en sú hægri stjórn sem var mynduð undir stjórn og forystu þeirra Engeyjarfrænda. Forsætisráðherra er mætavel kunnugt um það. En sá á kvölina sem á völina og 25% ánægja er niðurstaðan með það val. En það sem er liðið er liðið. Framtíðin er það sem mestu máli skiptir. Nú er bara að vona að þær traustu undirstöður, sem lagðar voru fyrir efnahagslegar framfarir og hagsæld á tíma síðustu ríkisstjórnar undir forystu Framsóknarflokksins, haldi.

Þjónar, ekki herrar
Vinna, vöxtur og velferð, manngildi ofar auðgildi eru einkunnarorð Framsóknarmanna. Til þess að tryggja velferð verður að vera örugg atvinna um allt land, fyrir alla. Það er ekki ástæða til að örvænta um framtíð Íslands. Nú sem fyrr höfum við úr miklu að spila og enginn á að þurfa að líða skort. Við munum væntanlega fá meira af því sama á næstu árum. Verðbólga verður lág, hagvöxtur mun halda áfram, kaupmáttur launa mun vonandi styrkjast enn frekar. En það mun koma að því að um hægist. Því er mikilvægt að tryggja hagsmuni okkar sem þjóðar til framtíðar. Það verður best gert í sátt. Fólk má ekki fá þá tilfinningu að sumir séu jafnari en aðrir, vegna ákvarðana sem teknar eru á vettvangi stjórnvalda. Stjórnmálamenn eiga að vera þjónar fólksins, ekki herrar.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.

Nýjar fréttir