-10.3 C
Selfoss

Dagur kvenfélagskonunnar er í dag

Vinsælast

Hvers vegna er dagur kvenfélagskonunnar haldinn hátíðlegur 1. febrúar? Því er til að svara, að þennan dag árið 1930 var Kvenfélagasamband Íslands stofnað til að verða samstarfsvettvangur allra kvenfélaganna í landinu. Þau voru þá þegar orðin fjölmörg og fyrsta kvenfélagið, Kvenfélag Rípurhrepps, var stofnað árið 1869. Konur hafa síðan þá stofnað hundruð kvenfélaga með það að markmiði að bæta samfélagið, sérstaklega hvað varðar málefni barna, kvenna og fjölskyldna. Má segja að konur hafi með því tekið völdin í sínar hendur löngu áður en þær fengu aðgengi að stjórnkerfinu með kjörgengi og kosningarétti árið 1915.

Störf kvenfélagskvenna eru og hafa verið samfélaginu öllu afar mikilvæg þó ekki hafi þau alltaf farið hátt eða mikið farið fyrir þeim í fjölmiðlum. Það var löngu tímabært að sérstakur dagur yrði helgaður kvenfélagskonum þegar formannaráð KÍ útnefndi stofndag sinn 1. febrúar sem „Dag kvenfélagskonunnar” árið 2010.

Eftir útnefninguna hefur verið unnið að því að festa daginn í sessi með ýmsum hætti og er hans nú getið á flestum dagatölum og dagbókum. Hugmyndir eru uppi um að festa Dag kvenfélagskonunnar enn frekar í sessi með því að kvenfélagskonur „Gylli tilveruna” á einhvern hátt í febrúarmánuði ár hvert. Af því tilefni hefur verið stofnuð nefnd með fulltrúum frá nokkrum héraðsamböndum KÍ til að vinna þessari hugmynd frekara brautargengi.

Kvenfélagasamband Íslands er sameiningar- og samstarfsvettvangur allra kvenfélaga á landinu. Innan þess eru 18 héraðsambönd með um 5.000 félaga. Sambandið gefur út tímaritið Húsfreyjuna og rekur einnig Leiðbeiningarstöð heimilanna, sem veitir fría ráðgjöf og upplýsingaöflun að öllu er varðar rekstur á heimili.

Einkar ánægjulegt er að núverandi forseti KÍ er af sambandssvæði sunnlenskra kvenna. Hún heitir Guðrún Þórðardóttir og er félagskona í Kvf. Grímsneshrepps. Jafnframt er hún forseti norrænu kvennasamtakanna Nordisk kvinneforbund (NKF). Höfuðstöðvar KÍ eru að Hallveigarstöðum við Túngötu í Reykjavík. Þá má og geta þess að framkvæmdastjóri KÍ er Hildur Helga Gísladóttir frá Unnarholtskoti í Hrunamannahreppi, félagi í Kvenfélagi Hrunamannahrepps.

Samband sunnlenskra kvenna er eitt þessara héraðssambanda innan KÍ. Formaður þess er Elinborg Sigurðardóttir í Kvenfélagi Biskupstungna. Innan SSK eru 26 kvenfélög með rúmlega 900 félaga. Það var stofnað árið 1928 og verður því 90 ára á næsta ári. Gaman væri að þá yrðu félagar orðnir 1.000.

Margir eru enn haldnir þeirri ranghugmynd að kvenfélög séu einungis fyrir gamlar konur og að þar sé bara verið að baka kökur! Kvenfélagskonur eru á öllum aldri og þær vita að sjálfboðin störf þeirra eru mjög mikilvæg samfélaginu á hverjum stað. Þær finna ætíð fyrir gleði og hamingju þegar þeim hefur tekist að safna nægum fjármunum til að geta gefið þangað sem þörfin er brýnust hverju sinni.

Sjúkrahúsið á Selfossi er og hefur alltaf verið óskabarn SSK. Því vorum við kvenfélagskonur á Suðurlandi afar hreyknar þegar við gátum fyrir áramótin afhent HSU fjögur tæki sem þangað vantaði nauðsynlega, að andvirði rúmar 2,2 milljónir króna. Þetta voru skoðunarbekkur til nota hjá kvensjúkdómalækni, lífsmarkamælir, hjartalínuritstæki og meðferðarstóll á göngudeildina. Þessi tæki eins og önnur sem gefin hafa verið til sjúkrahússins eru keypt fyrir söfnunarfé úr sjúkrahússjóði SSK sem stofnaður var árið 1952. Aðalfjáröflun í þennan sjóð hefur verið sala á jólakortum og síðustu 3 ár einnig sala lítilla kærleiksengla. Þeir eru til sölu hjá kvenfélögunum og í móttöku HSU.

Kvenfélagskonur á sambandssvæðinu hafa frá árinu 2010 prjónað og heklað ýmsar gjafir fyrir nýbura á Suðurlandi. Ljósmæður á HSU hafa séð um dreifingu þeirra og segja þær mikla ánægju með þessar gjafir hjá nýbökuðum foreldrum. Það eru því vonandi margir litlir Sunnlendingar sem hafa fundið yl af húfu, vettlingum, sokkum, hjartavermir, ungbarnapúpu eða öðru sem unnið hefur verið af kærleiksríkum kvenfélagshöndum.

Kvenfélög, kvenfélagskonur og landsmenn eru hvött til að muna eftir Degi kvenfélagskonunnar. Mörg  sveitarfélög senda kveðjur til kvenfélagskvenna á öldum ljósvakans í RÚV þennan dag þar sem þakkað er fyrir framlag þeirra til samfélagsins. Fjölmörg kvenfélög gera sér glaðan dag í tilefni dagsins. Í ár hefur Kvenfélag Selfoss tekið að sér að „Gylla tilveruna” fyrir hönd SSK þann 1. febrúar og standa fyrir samkomu kl. 20:00 í sal Karlakórsins við Eyraveg á Selfossi. Þangað eru allir velkomnir. Munum að allar konur eru velkomnar í kvenfélögin á Suðurlandi. Þar fer fram afskaplega fjölbreytt og skemmtilegt starf. Konur eru hvattar til að kynna sér störf kvenfélaganna í sínu byggðalagi og leggja þeim lið. Góð kvenfélagskona, gulli betri!

Elinborg Sigurðardóttir, formaður SSK.

Nýjar fréttir