-1.1 C
Selfoss
Home Fastir liðir Lestrarhesturinn Mér finnst gott að hafa margar bækur í kringum mig

Mér finnst gott að hafa margar bækur í kringum mig

Mér finnst gott að hafa margar bækur í kringum mig
Edda Laufey Pálsdóttir er lestrarhestur.

Edda Laufey Pálsdóttir er fædd og uppalin á Búrfelli í Grímsnesi. Hún flutti til Þorlákshafnar árið 1966 með bónda sínum Svani Kristjánssyni og börnum og hefur búið þar síðan. Starfaði í nokkur ár hjá Pósti og síma, síðan sem heilsugæslu- og læknaritari hjá Heilsugæslustöð Þorlákshafnar í rúmlega 20 ár.

Hvaða bók ertu að lesa núna og hvað vakti áhuga þinn á henni?
Ég var að ljúka við bókina Á meðan straumarnir sungu sem er endurminningabók séra Sváfnis Sveinbjarnarsonar. Vissi að hann hafði verið prestur í Suðursveit og Öræfum og mig langaði að glugga í þessa bók. En ég gerði meira en að glugga í bókina því ég las hana spjaldana á milli. Hún var bæði fróðleg og skemmtileg og geymir sögu fólks sem búið hefur um aldir við ótrúlega einangrun, óbrúuð vatnsföll og erfiða lífsbaráttu. Maður undrast það menningarlíf sem þarna hefur orðið til. Höfundur segir frá af mikilli virðingu og væntumþykju á samferðafólkinu og hefur líka hlotið virðingu þess. Litlu sögurnar, fullar af kímni og óvæntum atburðum gleymast ekki og svo er ekki síst saga prestsins og fjölskyldu hans.

Getur þú lýst lestrarvenjum þínum?
Mér finnst gott að hafa margar bækur í kringum mig. Skoða þær svolítið áður en ég byrja lesturinn. Ef bókin er spennandi les ég langt fram á nótt.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?
Ég held að heimildaskáldsögur höfði helst til mín eins og Bernskubók Sigurðar Pálssonar sem er bara snilld. Góðar ævisögur, ferðabækur, landakort og þýddar skáldsögur. Svo er gott að hafa Arnald með.

Getur þú sagt frá bók sem hafði sérstaklega mikil áhrif á þig?
Í hugann kemur bókin Hraunfólkið eftir Björn Th. Björnsson en þá bók finnst mér að ætti að kvikmynda. Bókin segir frá lífi og starfi nokkurra presta á Þingvöllum, gleði þeirra og raunum og baráttu við knáan kotbónda í Skógarkoti sem fór sínu fram í kvennamálum. Svo göngum við enn götur og stíga í hrauninu sem hann lagði. Þessi bók er hluti af sögu Þingvalla og íslensku þjóðarinnar.

Hver er uppáhalds barnabókin þín og hvers vegna?
Dóru bækurnar eftir Ragnheiði Jónsdóttur voru bækur bernsku minnar. Ég fékk þær í jólagjöf ár eftir ár og þurfti ekki fleiri gjafir.

Geta bækur breytt viðhorfi manna? Hvernig?
Góðar barnabækur geta haft mikið uppeldislegt gildi. Lestur góðra bóka opnar hugann og víkkar sýn.