-7.2 C
Selfoss

Ný glæsileg hjúkrunardeild vígð á Lundi á Hellu

Vinsælast

Það ríkti mikil gleði á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Lundi á Hellu sl. föstudag þegar átta vel búnar hjúkrunaríbúðir í nýrri hjúkrunardeild voru formlega teknar í notkun. Hin nýja hjúkrunardeild er í nýrri 600 fermetra viðbyggingu sem nú hefur verið lokið við en fyrsta skóflustungan var tekin haustið 2014. Verkið hefur gengið afar vel og byggingin vönduð og myndarleg.

Verktaki við bygginguna var Smíðandi ehf á Selfossi en það eru sveitarfélögin Rangárþing ytra og Ásahreppur sem standa að byggingunni ásamt ríkinu sem rekur heimilið. Bjarni J. Matthíasson, forstöðumaður þjónustumiðstöðvar Rangárþings ytra, hafði eftirlit með verkinu.

Með tilkomu hinnar nýju deildar eiga allir íbúar hjúkrunarheimilisins nú kost á einbýli en deildin er hönnuð með þarfir heilabilaðra að leiðarljósi. Skipulag deildarinnar byggist á viðmiðum velferðarráðuneytisins um hjúkrunarheimili þar sem áhersla er lögð á fámennar hjúkrunareiningar og heimilislegar aðstæður.

Vígslan var afar hátíðleg en auk ávarpa Óttars Proppé heilbrigðisráðherra fluttu tölu Ágúst Sigurðsson sveitarstjóri og Drífa Hjartardóttir stjórnarformaður Lundar. Vígslunni stýrði Margrét Ýrr Sigurgeirsdóttir hjúkrunarforstjóri á Lundi og séra Elína Hrund Kristjánsdóttir í Odda blessaði húsið. Karlakór Rangæinga undir styrkri stjórn Guðjóns Halldórs Óskarssonar söng af alkunnri snilld m.a. lagið Rangárþing eftir Björgvin Þ. Valdimarsson.

Nýjar fréttir