-1.6 C
Selfoss

Allir velkomnir að koma í Tíbrá og tippa

Vinsælast

„Hér hittist hópur milli klukkan ellefu og eitt alla laugardaga meðan enski boltinn er í gangi. Og hér er alltaf heitt á könnunni og bakkelsi frá Guðnabakaríi,“ segir Gissur Jónsson, framkvæmdastjóri Umf. Selfoss og einn fjögurra umsjónarmanna Selfossgetrauna sem eru með starfsemi á laugardögum í Tíbrá, félagsheimili Umf. Selfoss.

„Það eru allir velkomnir til okkar en það er samt ákveðinn fastur kjarni sem mætir hérna á hverjum einasta laugardegi. Það er partur af ákveðinni rútínu að koma hingað í Tíbrá á laugardögum og tippa. Þetta eru margir fyrrverandi leikmenn úr fótboltanum hér á Selfossi og stuðningsmenn klúbbsins sem koma hérna og eru að tippa hjá okkur. Þetta eru menn sem hafa áhuga á fótboltanum og bara öllu mögulegu sem gerist hérna á Selfossi. Menn hafa skoðanir á öllu mögulegu. Það er yfirleitt tekin öll umræðan, sportið og pólitíkin og ekki hvað síst bæjarmálin, þetta sem er svona daglega í gangi hérna.“

Að sögn Gissurar mæta í Tíbrá á hverjum laugardegi rúmlega tuttugu manns. Hann áætlar að það séu samt í kringum 30–40 manns sem mæta í getraunastarfið heilt yfir.

Bergur Pálsson og Páll Dagur Bergsson unnu haustleik Selfossgetrauna að þessu sinni. Ljósmynd: ÖG.
Bergur Pálsson og Páll Dagur Bergsson unnu haustleik Selfossgetrauna að þessu sinni. Ljósmynd: ÖG.

„Við erum yfirleitt með hópleik á haustin og vorin. Þá eru oftast tveir saman í hóp og það eru síðan tíu til fjórtán vikna langir leikir í gangi. Þetta er innanhússkeppni þar sem þeir efstu fá smá verðlaun. Bergur Pálsson og Páll Dagur sonur hans unnu haustleikinn hjá okkur núna. Við vorum einmitt að afhenda verðlaun fyrir leikinn í dag. Þess má geta að þeir feðgar eru búnir að vinna núna tvisvar í röð en það hefur aldrei gerst áður.

Þetta er miklu meira en bara að koma og tippa. Þetta er miklu meira félagsskapurinn fyrst og fremst. Þeir sem hafa haft áhuga á íþróttum og ungmennafélaginu hafa verið duglegir að koma. Svo verð ég auðvitað að koma því að það eru allir velkomnir,“ sagði Gissur að lokum.

Nýjar fréttir