-1.5 C
Selfoss

Útlit fyrir fjölmennt Landsmót UMFÍ 50+ í Hveragerði í sumar

Vinsælast

Landsmót UMFÍ 50+ verður haldið í Hveragerði dagana 23. til 25. júní næstkomandi. Er þetta í fyrsta skipti sem 50+ mótið er haldið á sambandssvæði HSK. Að sögn Ómars Braga Stefánssonar, framkvæmdastjóra mótsins, hefur undirbúningur gengið mjög vel og er búist við fjölmennu móti.

Framkvæmdanefnd mótins fundaði nýlega með sérgreinastjórum í Hveragerði og kom fram þar að mikill hugur er í fólki. Ómar segir stöðuna góða enda öflugt fólk sem standi að skipulagningu mótsins og þekki þau allt sem skipti máli við skipulagningu stórra móta.

Ómar Bragi sagði á fundinum útlit fyrir að Landsmót UMFÍ 50+ í Hveragerði geti orðið stærsta og fjölmennasta mótið af þessu tagi til þessa og vísaði til þess hversu stutt er til Reykjavíkur, Selfoss og annarra þéttbýliskjarna á Suðurlandi þar sem ungmennafélög eru sterk og bæði iðkendur og sjálfboðaliðar mjög kraftmiklir. Garðyrkju- og blómasýningin Blóm í bæ verður haldin í Hveragerði sömu helgi og Landsmót UMFÍ 50+ og mun bærinn því standa í miklum blóma um mótshelgina.
Héraðssambandið Skarphéðinn (HSK) er mótahaldari í Hveragerði. Þar er þaulreynt fólk þegar kemur að mótahaldi. Landsmót UMFÍ var haldið á Selfossi árið 1978 og aftur árið 2013. Til viðbótar var Unglingalandsmót UMFÍ haldið í Þorlákshöfn 2008 og á Selfossi árið 2012. Í Hveragerði var síðast haldið Landsmót á vegum UMFÍ árið 1949. Landsmót UMFÍ 50+ í Hveragerði verður sjöunda mótið fyrir 50 ára og eldri sem UMFÍ heldur.

Á mótinu í Hveragerði í sumar verða í boði margar greinar sem þátttakendur fyrri móta þekkja vel og hafa fest sig í sessi. Má þar nefna badminton, boccia, bridge, frjálsar, golf, línudans, pútt, ringo, sund og skák. Auk þess verður pönnukökubakstur og hið víðfræga og stórskemmtilega stígvélakast sem keppt verður í á lokadegi mótsins. Þá verður keppt í sérstökum greinum á borð við fuglagreiningu. Einnig verður boðið upp á keppni í strandblaki á flottum velli, utanvegahlaup, crossfit og þríþraut. Greinarnar eru allar geysivinsælar á meðal iðkenda um miðjan aldur og má búast við að keppni í þeim verði bæði fjölmenn og hörð.

Allir sem verða 50 ára á árinu geta tekið þátt í Landsmóti UMFÍ 50+ í Hveragerði.

Nýjar fréttir