Karitas Harpa Davíðsdóttir frá Selfossi var ein af átta keppendum sem komust áfram síðastliðinn föstudag í söngkeppninni The Voice Ísland sem fram fer í Sjónvarpi Símans.
„Mér finnst 25 svo flott tala að ég hef ákveðið að vera það eitt ár í viðbót,“ segir Karitas Harpa. „Ég er aðflutt en vil orðið kalla mig Selfyssing enda er það sá staður sem ég hef búið lengst á eftir að hafa flutt tæplega 20 sinnum á lífsleiðinni.“
Karitas Harpa segist hafa flutt á Selfoss á viðkvæmum og mótandi aldri eða í 9. bekk, sem hafi verið mjög erfitt en hún hafi verið svo heppin að vel hafi verið tekið á móti sér. Síðan þá hafi hún skotið rótum á Selfossi og fætt Selfyssing sem nú er orðinn rúmlega tveggja ára. „Hann er mér mikill innblástur í þessu ferli, svo hvert sem farið verður í lífinu mun sunnlenska hjartað alltaf slá fast.“
„Ég er búin að vera að syngja meira og minna síðan ég byrjaði að tala en fór ekki að koma fram af viti fyrr en í framhaldsskóla. Ég komst í söngleikjanám í Boston árið eftir útskrift en fór ekki út þar sem námið reyndist of dýrt. Eftir þá lífsreynslu hef ég verð ofboðslega lukkuleg að fá m.a. að taka þátt í jólatónleikum Kjartans Björnssonar, Hátíð í Bæ, fimm ár í röð, ásamt því að hafa komið fram á öðrum misstórum uppákomum“.
Hópurinn í The Voice Ísland byrjaði með rúmlega 80 þátttakendum og hefur nú verið fækkað niður í átta, tveir eru eftir í hverju liði. „Ég hef verið hjá Sölku Sól frá fyrsta degi og er þar enn. Næstkomandi föstudag minnkar hópurinn um helming og einungis einn úr hverju liði mun halda áfram inn í lokaþáttinn sem verður 3. febrúar. Þetta hefur verið þvílíkt ævintýri og svakalegur skóli hvað varðar söng og framkomu og þægindamörk hafa verið þanin til hins ýtrasta. Salka er búin að vera yndisleg, hún er svo náttúrulegur listamaður að það hafa verið mikil forréttindi að fá að vinna svona náið með henni.“
Kosningin hefst á slaginu 20:00, þegar fyrsti keppandi byrjar. Engin takmörk eru á fjölda atkvæða og hvert atkvæði skiptir máli.
„Ég vona innilega að ég fái tækifæri til að vinna mér inn ykkar atkvæði. Hvernig svo sem fer á föstudaginn vona ég að þetta sé bara byrjunin á einhverju meira og stærra. Þeir segja manni að „þora að dreyma stórt“ svo hér er ég, að þora,“ segir Kritas Harpa.