1.1 C
Selfoss

Kári Sigurðsson sýnir í Bókasafninu í Hveragerði

Vinsælast

Laugardaginn 28. janúar nk. kl. 13 opnar myndlistarsýning Kára Sigurðssonar á Bókasafninu í Hveragerði. Boðið verður upp á hressingu og spjall við listamanninn sem hefur verið búsettur í Hveragerði í tæpt ár.

Kári er fæddur 20. apríl 1947 í Vopnafirði og er húsasmíðameistari að mennt. Hann kenndi iðnteikningu við Iðnskóla- og Framhaldsskóla Húsavíkur frá 1973–1989 og teikningu og myndmennt í grunn- og framhaldskólanum 1986–1993. Hann stóð ennfremur fyrir námskeiðum í myndlistum fyrir fullorðna. Kári hefur m.a. starfað við smíðar, verslunar- og skrifstofustörf ásamt gluggaskreytingum, að félagsmálum og listrænni starfsemi. Myndlistarnám er að mestu sjálfsnám. Kári á að baki fjölda einkasýninga, auk þátttöku í samsýningum, og á verk í eigu opinberra aðila og fjölda einstaklinga. Hann er félagi í Litku, Grósku, félagi myndlistarfólks í Garðabæ.

Kári vinnur í flesta hefðbundna myndmiðla, en sérstaða hans felst í því að hafa í áraraðir að mestu skapað sín myndverk með olíu- og pastelkrít (þurrkrít). Í öðrum verkum Kára hafa olía, akrýl og vatnslitir verið uppistaðan.

Í myndverkum Kára er viðfangsefnið oftar en ekki hljóð íslensk náttúra í sinni margbreytilegustu mynd og þar skipa veðrabrigðin, birtan, úrkoman, þokan og mistrið öndvegi. Þá fjalla myndverk Kára oft á tíðum um þau spor sem maðurinn skilur eftir sig og áhrif þess á náttúruna. Tilvist mannsins og afleiðingar af veru hans kemur þannig oft fram  í húsa-, báta- og hafnarmyndum hans. Þá sjaldan að manneskjan sjálf kemur fram er hún eitthvað að bardúsa.

Sýningin verður opin um leið og safnið, mánudaga kl. 11–18:30, þriðjudaga – föstudaga kl. 13–18:30 og laugardaga kl. 11–14 og stendur til 26. febrúar. Allir eru hjartanlega velkomnir.

Nýjar fréttir