Björg Árnadóttir, framkvæmdastjóri hjá Midgard Adventure á Hvolsvelli, er búin að vera hjá fyrirtækinu síðan 2013. Hún segist hafa byrjað með því að búa í hálfgerðri kommúnu með samstarfsfólki sínu en eigi sér pínulítið eigið líf núna.
Fyrirtækið stendur í miklum framkvæmdum og er að standsetja og breyta húsnæði sem það festi kaup á fyrir nokkru.
Forsaga fyrirtækisins er sú að Sigurður Bjarni Sigurðsson sem er innfæddur byrjaði með fyrirtækið rétt fyrir eldgosið í Eyjafjallajökli 2012. Björg segir að hann hafi ekki grætt mikið á því á þeim tíma því að þá mætti enginn til landsins. Hún bætir þó við að kannski megi samt segja að hann hafi í raun grætt svolítið, því hann ferðaðist svo mikið með blaðamennina.
Fengum mikla umfjöllun
„Við fórum svo strax að fá miklar umfjallanir og komumst m.a. í Lonely Planet sem nýttist okkur vel. Arnar Gauti Markússon sonur minn kom inn í fyrirtækið 2011 og Stefnir Gíslason 2012. Þetta eru þessir þrír sem eru eigendur ásamt Sveini Sigurðssyni, pabba Sigga Bjarna, en hann hefur verið með okkur í þessu frá upphafi og verið alger stoð og stytta, ekki síst í þessum byggingaframkvæmdum okkar. Við hefðum aldrei farið í þetta nema fyrir hans tilstuðlan. Hann hefur líka taugar til hússins því hann byggði það á sínum tíma,“ segir Björg.
„Fyrirtækið hefur þannig töluverða tengingu við heimafólk, en það er það sem okkur finnst svo gaman að gera út á, þ.e. þessa fjölskyldu- og vinatengingu. Við höfum líka gert í því að safna í kringum okkur fólki sem hefur þessa tengingu við innfædda. Mér finnst það bara liggja í hlutarins eðli.“
Framkvæmum ferðirnar okkar sjálf
„Við erum ferðaskrifstofa, og erum að búa til ferðir frá a til ö. Við erum líka að framkvæma ferðirnar okkar sjálf sem er svolítið ólíkt öðrum ferðaskrifstofum. Mér finnst stærsti hlutinn í þessum ferðum akkúrat vera þetta að við séum að geta tengt fólk við þær upplifanir sem við höfum átt á þessum stöðum. Mér finnst t.d. svo mikilvægt að sýna gestum okkar hvar við eigum heima og jafnvel taka fólk heim til að hitta restina af fjölskyldunni þar sem þau lenda jafnvel í skötuveislu eins og gerðist síðustu jól. Svo er einn af leiðsögumönnunum bóndi og þá er náttúrulega farið með ferðalangana í fjósið. Annar á hestabúgarð þar sem við skoðum hestana. Við reynum þannig alltaf að skapa sem mesta tengingu við okkur sjálf til að skilja sem mest eftir.“
Vissum í fyrstu lítið hvað við ætluðum að gera
„Húsið sem við erum að byggja er um 700 fermetrar og var í niðurníðslu þegar við tókum við því. N1 átti það á þeim tíma og nýtti undir tjaldvagnageymslu. Svenni hafði þessa ástríðu þ.e. að kaupa húsið og strákarnir voru upptendraðir yfir því. Við gengum til samninga við N1 og fengum húsið um vorið 2014. Í fyrstu vissum við lítið hvað við ætluðum að gera við það en byrjuðum á að gera upp lítinn hluta til að hafa aðstöðu fyrir leiðsögumennina okkar. Við gerðum svo góða þvottaaðstöðu fyrir stóru bílana okkar og gott viðgerðaverkstæði fyrir bílana. Þá vissum við ekkert hvað við ætluðum að gera við restina.“
Hostel með kojum og prívatherbergjum
„Fljótlega komu þó fram þessar hugmyndir um hostelið. Við fórum í bankann og báðum um aðstoð við heildarfjármögnunina og fengum bara hreinlega synjun á það. Ég held að það hafi verið okkur svolítið hollt á þessum tíma. Við þurftum því að fara aðrar leiðir, bæði að auka eigið fé í þessu og að leita leiða til að fá fjárfestingu. Okkur tókst bæði og þá var bankinn auðvitað tilbúinn í slaginn með okkur. Við byrjuðum svo á byggingunni 2015, fyrst bara hægt og rólega. Nú er húsið orðið hátt í 1200 fermetrar.
Hugsunin á bak við þetta er sú að þetta er hostel með kojum að hámarki sex í herbergi. Það eru líka prívat herbergi í þessu með sér baðherbergi. Ég á þann draum að koma Ameríkönunum í að gista á hosteli. Þeir eru okkar stærsti viðskiptavinahópur í dag og þeir gista yfirleitt ekki á hostelum. Þeir segja að um leið og þeir hafi efni á að ferðast til útlanda séu þeir orðnir of gamlir til að gista á hostelum. Af því að við erum með prívatherbergi þá getum við hýst fjölskyldur. Það er svolítið sniðugt, en þá geta hjónin verið sér og verið með börnin sín í þessum kojuherbergjum.“
Veitingastaður og heitur pottur uppi á þaki
„Það er ekki bara að þetta verði hostel heldur verðum við með eitt flottasta heitapottastæði á landinu. Það er byggt upp á þaki þar sem er horft yfir hesthúsasvæðið, yfir akrana með hestunum og svo yfir Eyjafjallajökul. Þetta verður algjört æði þegar það verður tilbúið.
Svo ætlum við að vera með veitingastað. Við getum þannig haldið áfram á þeirri braut sem okkur finnst gaman að gera. Okkur finnst gaman að taka minni og meðalstóra hópa og bjóða þeim í rauninni heim til okkar. Þannig sjáum við bæði hostelið og veitingastaðinn. Það hefði kannski verið auðveldara að gera bara meira af því sem við erum að gera í dag, þ.e. ferðunum en við erum mjög spennt fyrir þessari breidd, þ.e. gistingu, ferðum og mat. Við getum þannig verið meira með gestunum okkar og raunverulega boðið þeim „heim”. Svo eykur þetta fjölbreytnina fyrir okkur og fyrirbyggir að við brennum út,“ segir Björg.
Að sögn Bjargar er stefnt að því að opna í mars. Fyrirtækið er með um fjórtán starfsmenn í dag og meiningin er að skapa brú á milli ferðaskrifstofunnar yfir í hostelið. „Það er okkur mikilvægt að þetta sé allt ein eining. Fyrst ætluðum við að leigja veitingastaðinn út en ákváðum svo að gera þetta sjálf. Ekkert okkar hefur nokkru sinni komið nálægt veitingarekstri áður. Við erum nú búin að ráða tvo kokka sem ætla að þróa þetta með okkur. Við byrjum allar ferðir hjá okkur í kaffi eða í morgunmat. Þetta finnst okkur svo svakalega gaman að gera, að ná fólki í tengingu við okkur. Ég held að veitingastaðurinn eigi sérstaklega eftir að hjálpa okkur þar.“
Björg Árnadóttir, framkvæmdastjóri (t.h.) ásamt Hörpu Mjöll Kjartansdóttur, starfsmanni Midgard Adventures. Ljósmynd: ÖG.