-5.5 C
Selfoss
Home Fréttir Unnur Brá kjörin forseti Alþingis

Unnur Brá kjörin forseti Alþingis

0
Unnur Brá kjörin forseti Alþingis
Unnur Brá Konráðsdóttir, forseti Alþingis.
Unnur Brá Konráðsdóttir forseti Alþingis.
Unnur Brá Konráðsdóttir forseti Alþingis.

Unnur Brá Konráðsdóttir var kjörin forseti Alþingis með 54 atkvæðum á fundi Alþingis í gær. Unnur Brá er fjórða konan til að vera kosin forseti Alþingis en fyrir sameiningu þingdeilda árið 1991 höfðu þrjár konur gegnt embætti forseta sameinaðs þings, eða annarrar hvorrar þingdeildar. Þá er Unnur Brá Konráðsdóttir yngsti þingmaðurinn sem er kjörin forseti Alþingis eða sameinaðs þings síðan Ásgeir Ásgeirsson var kjörinn forseti sameinaðs þings í janúar 1930, tæplega 36 ára að aldri. Á sama þingfundi var ný forsætisnefnd kjörin.

Nýkjörinn forseti Alþingis þakkaði alþingismönnum traustið og sagði einkar ánægjulegt að taka við embætti forseta Alþingis við þau tímamót að konur eru nú um helmingur þingheims, eða 48%, sem er hæsta hlutfall kvenna á þingi til þessa. Lagði Unnur Brá áherslu á náið og gott samstarf við formenn þingflokka, formenn stjórnmálaflokka og alþingismenn. Vísaði hún í reynslu af þingstörfum í desember og sagði þingmenn mega vera stolta af þeim vinnubrögðum og þeirri góðu samvinnu sem Alþingi sýndi. Þakkaði hún fráfarandi forseta, Steingrími J. Sigfússyni, og forsætisnefnd góð störf og ítrekaði vilja til góðs samstarfs við þingmenn alla, hvar í flokki sem þeir standa.

Unnur Brá Konráðsdóttir hefur setið á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn síðan 2009 sem alþingismaður Suðurkjördæmis. Áður en hún náði kjöri á Alþingi var hún sveitarstjóri Rangárþings eystra. Unnur Brá var 6. varaforseti Alþingis kjörtímabilið 2009–2013, hefur setið í iðnaðarnefnd, menntamálanefnd, félags- og tryggingamálanefnd, þingmannanefnd til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, velferðarnefnd, kjörbréfanefnd, efnahags- og viðskiptanefnd, fjárlaganefnd og allsherjarnefnd sem hún gegndi formennsku í á síðasta kjörtímabili. Unnur Brá hefur setið í Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins og var formaður Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins 2013-2016. Unnur Brá er með embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands.