-5.5 C
Selfoss

Sýningin verður aðal aðdráttaraflið

Vinsælast

Á föstudaginn í liðinni viku var haldið reisugilli í nýju eldfjalla- og jarðskjálftasetri á Hvolsvelli. Framkvæmdir hafa gengið mjög vel og er stefnt að opnun í maí.
Skúli Gunnar Sigfússon er einn af fjárfestum í LAVA, nýja eldfjalla- og jarðskjálftasetrinu. Hann er eigandi Subway-staðanna á Íslandi og er auk þess í ýmsum fasteignarekstri. Skúli var fyrst spurður hvernig hugmyndin að þessari eldfjallamiðstöð hafi orðið til.

Hvolsvöllur alltaf inn í myndinni
„Ég fylgdist með fréttum af Eyjafjallajökulsgosinu þegar það byrjaði en þá var ég staddur út í New York. Þá kviknuðu fyrst einhverjar hugmyndir. En svo var ég á leiðinni inn á Þórsmörk, ætli það hafi ekki verið 2012 eða 2013, og fór að hugsa að það þyrfti að reisa eldfjallasetur á Suðurlandi. Reyndar hafði ég þetta alltaf fyrst tengt Eyjafjallajökli en svo eftir því sem hugmyndin þróaðist kom það bara upp að það væri gott að hafa það eldfjallamiðstöð fyrir allar eldstöðvar og að hafa það almennara. Hvolsvöllur var samt alltaf inn í myndinni, staðurinn er einhvern veginn mitt á milli eldfjallanna allra og þetta er góð staðsetning. Upp úr því þróaðist það,“ segir Skúli.

Skúli Gunnar Sigfússon einn af fjárfestunum í Lava á Hvolsvelli. Ljósmynd: ÖG.
Skúli Gunnar Sigfússon einn af fjárfestunum í Lava á Hvolsvelli. Ljósmynd: ÖG.

Nauðsynlegt að hafa stóra fjárfesta
Skúli segir að hann hafi síðan fengið Sigmar Vilhjálmsson með sér í að þróa þessa hugmynd og að hann hafi unnið mikið í þessu í byrjun. „Svo fengum við þennan stóra fjárfesti í lið með okkur, Landsbréf Icelandic Tourism Fund sem Landsbréf, Icelandair og Landsbankinn eiga ásamt einhverjum lífeyrissjóðum. Það var nauðsynlegt því annars hefði þetta aldrei orðið að veruleika. Þeir fjárfesta mikið ferðaiðnaði og eru ástæðan fyrir því verkefni eins og þetta verða að veruleika.“

Stefnt að opnun í byrjun júní
Framkvæmdir hafa gengið mjög vel og húsið risið hratt á undanförnum vikum. Húsið er reist úr timbureiningum sem koma tilbúnar frá Austurríki. Fyrsta skóflustunga var tekin síðasta vor og er áformað að opna eldfjalla- og jarðskjálftasetrið núna í byrjun júní. „Það verður væntanlega allt klárt þá,“ segir Skúli.

„Hér veður aðallega þessi sýning þ.e. eldfjalla-og jarðskjálftasýning sem er tengd jarðsögu Íslands. Hún verður aðal aðdráttaraflið. Rammagerðin verður svo með verslun hér og einnig verður hér stór veitingastaður sem einnig verður aðdráttarafl út af fyrir sig. Í almenna rýminu í miðjunni verður allsherjar upplýsingamiðstöð fyrir jarðhræringar og það sem er í gangi ásamt upplýsingum frá Almannavörnum og annað slíkt.

Skúli var i lokin spurður hvort ekki væri gott að fá eins og eitt túristagos eftir að miðstöðin hefur opnað. Sagði hann með bros á vör að það væri mjög fínt.
-ög
Myndir:
(Lava Hvolsvelli 1)
Lava, eldfjalla- og jarðskjálftasetri. Ljósmynd: ÖG.
(Lava Hvolsvelli 2)
Nýja byggingin er meira og minna gerð úr timbureiningum. Ljósm.: ÖG.
(Lava Hvolsvelli 3)
Eitt af sýningarrýmunum í byggingunni. Ljósmynd: ÖG.

Nýjar fréttir