-7.8 C
Selfoss
Home Fréttir Pistlar Hvað kemur atvinnulíf og skóli hvort öðru við?

Hvað kemur atvinnulíf og skóli hvort öðru við?

0
Hvað kemur atvinnulíf og skóli hvort öðru við?
Sigurður Þór Sigurðarson stjórnarformaður TRS og formaður Atorku - samtaka atvinnurekenda á Suðurlandi.

Samkvæmt fyrirliggjandi könnunum, greiningum  og mælingum er ljóst að það unga fólk sem skilar sér úr skólum inn í atvinnulífið er ekki að skila sér inn í þær atvinnugreinar sem atvinnulífið kallar mest á. Of stór hluti fer í háskólanám á meðan of fáir fara í iðn- og tækninám. Þetta gerist þrátt fyrir að kjör, vinna og aðstæður iðn- og tæknifólks, séu almennt mjög góð og í fullu samræmi við það sem best gerist.

Greining sem unnin var haustið 2014 meðal sunnlenskra nemenda í 10. bekk grunnskóla og foreldra þeirra leiðir m.a. í ljós að verulega skortir uppá þekkingu þessa hóps á möguleikum í iðn-, verk- og tæknigreinum. Einungis um helmingur þessa hóps telur sig eiga góða atvinnumöguleika á Suðurlandi í framtíðinni, þrátt fyrir að atvinnulíf á svæðinu er með mesta og besta móti og mjög víða vantar hendur til góðra verka. Þá ekki síst fólk með menntun og þekkingu til aðkallandi starfa í iðn-, verk- og tæknigreinum margskonar. Tveir þriðju hlutar aðspurðra foreldra í þessari könnun töldu að þeirra börn muni fara í bóknám til stúdentspróf eftir 10. bekk og einungi 1/5 þeirra töldu að barnið muni fara í iðn- eða tækninám. Reyndar kom líka fram sú merkilega niðurstaða að tæp 60% foreldra töldu sig ekki hafa áhrif inn á hvaða braut skólaganga barnsins færi.

Það vakti og athygli að stór hluti aðspurðra ungmenna í þessari könnun telur sig ekki hafa nægjanlegar upplýsingar um atvinnulífið og einungis um helmingur aðspurðra er ánægður með námsframboð á svæðinu, svo og að um 85% töldu að auka þurfi framboð á iðn-, verk- og tæknigreinum í framhaldsskólum.

Hvað er til ráða? Við þurfum m.a. að kynna miklu betur alla þá kosti sem ungu fólki bjóðast í námi og starfi og þá ekki síst í hverju viðkomandi störf eru fólgin. Við þurfum að efla nám í iðn-, verk- og tæknigreinum og opna betur aðgengi að starfsnámi og námssamningsframboði hjá sunnlenskum fyrirtækjum. Við þurfum að efla samstarf um fagháskólanám og vinna mun betur að þeim málum. Skólarnir þurfa að leita meira út í atvinnulífið og nýta þar sérþekkingu starfsmanna sunnlenskra fyrirtækja, tækni- og tækjabúnað þeirra.

Starfamessa á Suðurlandi er einn þáttur í þessari vinnu allri, en þessum merka samfélagslega viðburði er m.a. ætlað að kynna störf og starfsgreinar hjá sunnlenskum fyrirtækjum, svo og námleiðir að þessum störfum. Starfamessa verður nú haldin í annað sinn,  þriðjudaginn 14. mars nk. í Fjölbrautaskóla Suðurlands. Þar verða 35–40 atvinnu- og námsgreinar kynntar ásamt fjölbreytileika sunnlenskra fyrirtækja. Til Starfamessunnar er sérstaklega boðið öllum 9. og 10. bekkingum grunnskóla á Suðurlandi svo og 1. og 2. árs nemum framhaldskóla á svæðinu. Einnig eru foreldrum þessara ungmenna boðið að koma og kynna sér sérstaklega þessi störf og möguleika þeirra.

Sunnlenskt atvinnulíf þarf eins og að framan greinir að vera virkari þátttakndi í þessu samtali öllu,  m.a. vera virkt í umræðu um námsleiðir og framboð, svo og vera beinn þátttakandi í stuðningi við skóla og menntakerfið á svæðinu. Ég skora á alla sunnlenska atvinnurekendur að gefa kost á sér til þessa samtals.

Sigurður Þór Sigurðsson, stjórnaformaður TRS og formaður Atorku – samtaka atvinnurekenda á Suðurlandi.